„Viðskiptaþvinganir munu gera stöðuna erfiðari,“ segir Benedikt Jónsson, sendiherra Íslands gagnvart Bretlandi og Írlandi, í samtali við írska dagblaðið Irish Times um makríldeiluna. Vísar hann þar til yfirlýsingar Mariu Damanaki, sjávarútvegsstjóra Evrópusambandsins, fyrr í þessari viku um að ákvörðun verði tekin í lok þessa mánaðar hvort gripið verði til refsiaðgerða gegn Íslandi vegna deilunnar.
Benedikt leggur áherslu á að viðræður séu vænlegri til árangurs en orðaskak og spyr ennfremur að því hvers vegna Simon Coveney, sjávarútvegsráðherra Írlands sem ítrekað hefur hvatt Evrópusambandið til þess að grípa til aðgerða gegn Íslendingum og Færeyingum, hafi einungis gagnrýnt makrílveiðar þessara tveggja þjóða og krafist aðgerða gegn þeim en ekki Rússum sem einnig stunduðu miklar veiðar úr makrílstofninum í Norðaustur-Atlantshafi.
Sendiherrann bendir ennfremur á að allar þjóðirnar sem nýttu makrílstofninn væru sameiginlega að veiða meira en vísindamenn ráðlögðu. Íslendingar væru að veiða 22,7% ráðlagðrar veiði og Evrópusambandið og Norðmenn saman 90,3%. „Veiðar Rússa vegna ársins 2013 eru áætlaðar 12,6% af því sem vísindamenn ráðleggja. Hvernig koma þær saman við skilyrði ESB fyrir refsiaðgerðum?“
Þá ítrekar Benedikt við Irish Times að íslensk stjórnvöld telji að refsiaðgerðir myndu brjóta gegn reglum Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar (WTO) og 9. grein samningsins um Evrópska efnahagssvæðið (EES).