12 og 40 ára „giftust“ á Austurvelli

Ungmennaráð UN Women og sviðslistahópurinn S.U.S. stóðu í dag fyrir gjörningi á Austurvelli til að vekja athygli á barnabrúðkaupum.

„Við vildum setja brúðkaupið í íslenskan búning til þess að sýna fram á fáránleika barnabrúðkaupa, ef þau ættu sér stað á Íslandi, því okkar mat er að þetta ætti ekki að eiga sér stað neins staðar,“ segir Salka Margrét Sigurðardóttir stjórnarmaður Ungmennaráðsins, sem jafnframt tók að sér hlutverk prestsins.

Brúðhjónin voru 12 ára stúlka og rúmlega fertugur maður en brúðkaupið gekk þó ekki eftir heldur greip Salka Margrét inn í, flutti ræðu um alvarleika barnabrúðkaupa og forðaði svo hinni ungu brúður í burtu svo hún gæti notið barnæskunnar og lokið menntun sinni.

„Við viljum setja þetta nær fólki til að fólk áttaði sig á því að þetta sé raunverulega að eiga sér stað úti í heimi,“ útskýrði Salka Margrét, en um 39 þúsund stúlkur undir lögaldri eru gefnar í hjónaband á degi hverjum. Hún segir gjörninginn hafa vakið mikla athygli, sérstaklega meðal túrista sem vissu ekki hvaðan á sig stóð veðrið.

Salka Margrét segir barnabrúðkaup bönnuð í mörgum þeirra landa þar sem þau eru engu að síður algeng. Hugarfarsbreytingu þurfi til og kveður hún UN Women standa að fræðslu um allan heim til að sporna við barnabrúðkaupum.

„Við viljum sérstaklega vekja athygli á þessu meðal ungs fólks því að við unga fólkið þekkjum það hvernig er að njóta barnæskunnar og frelsisins og allir ættu að fá tækifæri til þess. Þess vegna viljum við afnema þetta óréttlæti og ofbeldi gagnvart stúlkum sem barnabrúðkaup eru.“

Ræða Sölku Margrétar í heild sinni er hér að neðan:

Kæru gestir,
Við erum saman komin hér í dag til að gefa saman þau Ragnhildi og Sigurð í heilagt hjónaband. Þau munu heita því að vera hvort öðru trú, elska og virða hvort annað. Guð sameinar þau og þau tvö verða eitt.

Ég verð þó að minnast á að hann er 47 ára en hún er 12 ára.

Fyrir milljónir stúlkna er gifting af þessu tagi óhjákvæmileg örlög, daglegt brauð en meðalaldur barnabrúða er víða 14 ára. En fyndist ykkur eðlilegt að hér á Íslandi myndi ég vígja þau Sigurð og Ragnhildi í heilagt hjónaband?

Þætti ykkur ekki eðlilegra að hún fengi að klára menntun sína án fjötra? Fæstar giftar stúlkur fá tækifæri á að ljúka námi en hér á Íslandi teljum við menntaveginn sjalfsagðan hlut, sama hvaða kyni eða stöðu þú tilheyrir.

Á Íslandi væri stúlka á þessum aldri að hlakka til fermingar, en ekki fyrirhugaðs lífs eiginkonu. Hvorki skyrtustraujun né bleyjuskiptingar myndu henta stúlku á þessum aldri.

Mikilvægt er að stuðla að hugarfarsbreytingu meðal allra svo að hjónabönd stúlkna verði afnumin. Starf UN Women hefur gífurleg áhrif þegar kemur að þessu en UN Women styrkir sérstök verkefni sem ætlað er að uppræta það ofbeldi gegn stúlkum sem barnabrúðkaup eru.

Ef við kjósum frekar að sitja aðgerðalaus og láta okkur málefni stúlkna víða um veröld ekki varða munu óteljandi fjöldi stúlka verða teknar í fullorðinna tölu án þess að hafa aldur til. Til að mynda hafa 27 stúlkur verið leiddar í hjónaband á þeirri stuttu mínútu sem ég hef átt við ykkur orð kæru gestir.

Með fjárframlögum, hugarfarsbreytingu og fiðrildaáhrifum langar okkur að uppræta ofbeldi gegn stúlkum, leyfa þeim að njóta ungdómsins og afnema það óréttlæti sem fyrirfinnst við þvinguð hjónabönd sem þessi. Það getum við gert með starfi UN Women.

Þið kæru brúðkaupsgestir teljið markmið okkar mögulega háleit, en við teljum þau sjálfsögð, því barn er ekki brúður.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka