„Ég er alveg virkilega kát með árangurinn. Mér leið ágætlega í hlaupinu, en þetta var dálítið erfitt,“ segir Aníta Hinriksdóttir hlaupadrottning úr ÍR sem varð í dag Evrópumeistari 19 ára og yngri í 800 metra hlaupi.
Þrátt fyrir öruggan sigur á heimsmeistaramóti 17 ára og yngri á dögunum var Aníta ekki örugg um sigurinn í þetta skiptið. „Ég var svipað stressuð og fyrir síðasta hlaup,“ segir Aníta. „Maður er alltaf dálítið stressaður fyrir þetta.“
HM U17 vann Aníta mjög örugglega en pressan var meiri í þetta skiptið þar eð hin úkraínska Olena Sidorska elti hana allan tímann og gerði sig líklega til að taka fram úr henni þegar 50 metrar voru eftir.
„Ég var dálítið stressuð um að hún myndi ná mér, ég byrjaði líka fullhratt því ég var svo stressuð en náði samt að halda hraðanum nógu vel,“ útskýrir Aníta, en hún fór fyrri hringinn á 58,68 sekúndum. Þegar Sidorska nálgaðist hana gaf hún aftur í og kom í mark með glæsilegum endaspretti á 2:01,16 mínútum.
Dagskráin hjá Anítu hefur verið þétt undanfarið, en hún sigraði á HM U17 fyrir aðeins sex dögum. „Ég held að maður verði að fagna þessu aðeins. Svo eru stærstu mótin á Íslandi enn eftir en ég hugsa að ég taki mér einhverja smá pásu frá 800 metrunum í bili.“
Aníta varð fyrsti Íslendingurinn til að verða heimsmeistari í frjálsum íþróttum þegar hún vann 800 m hlaupið á heimsmeistaramóti 17 ára og yngri í Donetsk í Úkraínu um síðustu helgi. Aðeins stangarstökkvarinn Vala Flosadóttir hefur komist nálægt því að verða heimsmeistari en hún varð í öðru sæti á heimsmeistaramótinu innanhúss í Maebashi fyrir 14 árum.
Helga Margrét Þorsteinsdóttir vann bronsverðlaun á HM fyrir 19 ára og yngri í Monckton á Nýfundnalandi fyrir fjórum árum en þessi mikla hæfileikastelpa fékk brjósklos fyrir nokkru og hefur ekki keppt síðan. Komist hún yfir meiðsli sín eru allir sammála um að gera megi miklar væntingar til hennar.
Aníta stefnir á mót fullorðinna á Evrópumeistaramótinu í Zürich í Sviss á næsta ári og ljóst er að spenningur er í loftinu.