Íslendingarnir fjórir sem eru að róa á sérstökum úthafsróðrarbáti frá Noregi til Íslands lögðu í morgun af stað frá Orkneyjum til Færeyja en það er annar viðkomustaður þeirra á leiðinni til Íslands.
Vegalengdin frá Orkneyjum til Porkeri á Suðurey er 190 sjómílur í beinni línu.
Einar Örn Sigurdórsson mun af persónulegum ástæðum ekki róa frá Orkneyjum en Hálfdán Freyr Örnólfsson, sem er sjómaður og nemi í Stýrimannaskólanum, mun leysa hann af. Einar Örn mun starfa áfram með áhöfninni að þessu verkefni.
Takist ætlunarverk þeirra, að róa frá Noregi til Íslands, kemst afrekið í heimsmetabók Guinness en leiðin sem áætlað er að róa er um 2.000 km í beinni línu. Umrædd leið hefur aldrei verið róin áður svo vitað sé.
Leiðangurinn hófst 17. maí í Kristiansand í Noregi og 17. júní síðastliðinn komu þeir til Orkneyja. Mesti hluti tímans hefur farið í að bíða eftir hagstæðu veðri.
Auk þess að setja heimsmet vill áhöfnin með ferðinni draga fram þau sögulegu atriði sem tengja saman þjóðirnar sem byggja Norður-Atlantshafið. Saga Auðar djúpúðgu, sem báturinn er nefndur eftir, tengir saman það svæði sem róið er um.
Nánari upplýsingar um leiðangurinn má finna hér.