Bréf til Moskvu þess efnis að Reykjavík vilji slíta stjórnmála- og menningarsamstarfi höfuðborganna tveggja mun væntanlega lenda beint ofan í skúffu og því ekki gagnast mannréttindabaráttu samkynhneigðra þar í landi á nokkurn hátt, þó svo að það gæti vakið athygli hér innanlands. Þetta segir Júlíus Vífill Ingvarsson, oddviti Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík, en á fundi borgarráðs næstkomandi fimmtudag verður tekin fyrir tillaga Jóns Gnarr borgarstjóra um að slíta þessu vinasambandi borganna.
„Það er barnalegt að halda að samskipti við aðrar þjóðir á alþjóðavettvangi feli í sér eitthvert samþykki á þeirra stefnu í mannréttindamálum. Við erum í samskiptum við margar þjóðir þar sem við lítum svo á að mannréttindi séu brotin,“ segir Júlíus Vífill og vísar þar meðal annars til sendiráðs Íslands í Kína. „Við erum ekki með því að lýsa yfir neinum stuðningi á þessu sviði við stefnu stjórnvalda eða stjórnkerfa almennt,“ bætir hann við og bendir á að næstkomandi haust muni Reykjavíkurborg taka þátt í hátíðarhöldum í tilefni þess að Ísland hefur átt í stjórnmálasamskiptum við Rússland, og áður Sovétríkin, í samfleytt sjötíu ár. Þá bendir hann á að með þátttöku á alþjóðavettvangi eru borgaryfirvöld í samskiptum við erlenda ráðamenn og geti því komið á framfæri athugasemdum og mótmælum vegna mannréttindabrota.
„Ég held að við eigum þá einlæglega að styðja við bakið á samkynhneigðum og transfólki í Rússlandi í þeirra baráttu og við gætum t.d. boðið þeim að koma til Íslands og taka þátt í Gay Pride-göngunni sem verður hér í næsta mánuði,“ segir Júlíus Vífill sem telur að slíkt gæti gert þeim kleift að koma sínum sjónarmiðum á framfæri við til dæmis alþjóðlega fjölmiðla sem viðstaddir verða hátíðarhöldin og þar með gætu borgaryfirvöld orðið þeim að einhverju liði.