Framsalssamningur ekki forsenda

mbl.is/Hjörtur

Fullgildur framsalssamningur á milli Bandaríkjanna og Íslands er ekki nauðsynleg forsenda þess að íslensk stjórnvöld gætu framselt bandaríska uppljóstrarann Edward Snowden til Bandaríkjanna ef hann kæmi hingað til lands. Þannig er íslenskum stjórnvöldum heimilt samkvæmt lögum nr. 13/1984 um framsal sakamanna og aðra aðstoð í sakamálum að framselja einstaklinga sem grunaðir eru í erlendum ríkjum fyrir refsiverðan verknað eða verið ákærðir eða dæmdur fyrir hann að uppfylltum ákveðnum skilyrðum sem sett eru í lögunum í þeim efnum.

Haft var eftir Ragnari Aðalsteinssyni, hæstaréttarlögmanni, í fréttum Ríkisútvarpsins á síðastliðinn föstudag að krafa bandarískra stjórnvalda um framsal á Snowden væri væntanlega byggð á framsalssamningi sem gerður var á milli Bandaríkjanna og Danmerkur árið 1902 en þá var Ísland enn hluti af danska konungsríkinu. Draga mætti hins vegar í efa að hans áliti að umræddur samningur væri í gildi gagnvart Íslandi þar sem landið hefði síðan hann var gerður orðið fullvalda ríki. Mögulegt framsal væri því háð ákvörðun íslenskra stjórnvalda og gæti ekki byggst á framsalskröfu frá Bandaríkjunum.

Sérstakur samningur gerður um Ísland

Framsalssamningurinn á milli Bandaríkjanna og Danmerkur var sem fyrr segir gerður árið 1902 en 1906 tók gildi viðbótarsamningur við hann sem varðaði Ísland sérstaklega og undirritaður var ári áður. Í millitíðinni fengu Íslendingar heimastjórn með innlendum ráðherra sem gerðist árið 1904. Þegar Ísland varð fullvalda ríki árið 1918 var kveðið á um það í sambandslagasamningnum við Danmörku að samningar, sem dönsk stjórnvöld hefðu gert við önnur ríki fyrir undirritun sambandslagasamningsins og vörðuðu Ísland, héldu gildi sínu gagnvart Íslandi.

Sambandslagasamningnum við Dani var sagt upp fyrir lýðveldisstofnunina árið 1944 í samræmi við ákvæði hans. Danir sögðu síðan framsalssamningnum við Bandaríkin formlega upp árið 1968 en gerðu í kjölfar þess nýjan samning við Bandaríkjamenn sem undirritaður var 1972 og tók gildi tveimur árum síðar. Áfram var hins vegar gert ráð fyrir því að framsalssamningurinn sem gildi tók árið 1902 og viðbótarsamningurinn frá 1906 sem tók sérstaklega til Íslands væri í gildi á milli Íslands og Bandaríkjanna þrátt fyrir uppsögn Dana á samningnum frá 1902 fyrir sína parta.

Dómstóll taldi samninginn í fullu gildi

Tekist var á um gildi framsalssamningsins á milli Íslands og Bandaríkjanna fyrir bandarískum dómstólum á fyrri hluta 9. áratugar síðustu aldar í tilefni af framsalskröfu íslenskra stjórnvalda vegna íslenskrar konu sem búsettur var í Bandaríkjunum í tengslum við rannsókn á fíkniefnamáli. Konan reyndi að fá kröfunni hnekkt aðallega með þeim rökum að enginn framsalssamningur væri í gildi á milli landanna þar sem samningurinn frá 1902 hefði verið gerður af hálfu Danmerkur og fyrir stofnun íslenska lýðveldisins. Ennfremur að jafnvel þó litið væri svo á að Íslandi hafi verið bundið af samningnum eftir lýðveldisstofnunina hafi hann fallið úr gildi þegar Danir sögðu honum upp árið 1968.

Áfrýjunardómstóll í San Diego komst hins vegar að þeirri niðurstöðu 8. desember 1983 að framsalssamningurinn á milli Íslands og Bandaríkjanna væri í fullu gildi. Var í því sambandi meðal annars vísað til yfirlýsinga bæði bandarískra og íslenskra stjórnvalda þess efnis, viðbótarsamningsins um Ísland sem gildi tók 1906, fordæma um framsalssamninga sem héldu gildi sínu þó lönd öðluðust sjálfstæði og þess að uppsögn Danmerkur 1968 á upphaflega samningnum frá 1902 hafi ekki haft áhrif þar sem Íslendingar hefðu þá ekki lengur verið undir stjórn Dana. Konan var í kjölfarið framseld til Íslands en málið gegn henni síðan látið niður falla.

Framsal átt sér stað frá Bandaríkjunum

Það er því ljóst að bæði stjórnvöld á Íslandi og í Bandaríkjunum líta svo á að framsalssamningurinn frá árinu 1902 og viðbótarsamningurinn um Ísland sem tók gildi 1906 séu í fullu gildi á milli ríkjanna. Þannig hafa fulltrúar íslenskra stjórnvalda lýst því opinberlega yfir meðal annars í tengslum við mál Bobbys Fischers fyrir tæpum áratug. Reynt hefur ennfremur á málið fyrir bandarískum dómstólum þar sem niðurstaðan varð á þá leið eins og áður segir auk þess sem framsal á milli Íslands og Bandaríkjanna hefur átt sér stað oftar en einu sinni. Þá er samninganna getið í skrám beggja ríkja yfir þá alþjóða- og milliríkjasamninga sem þau eiga aðild að.

Eins er ljóst að ef komist yrði að þeirri niðurstöðu að framsalssamningurinn á milli Íslands og Bandaríkjanna væri ekki í gildi er slíkur samningur ekki nauðsynleg forsenda þess að íslensk stjórnvöld gætu framselt Edward Snowden til heimalands síns eins og getið er í byrjun. Bandaríkin gætu þá í stað framsalskröfu lagt fram ósk um framsal sem þá væri háð ákvörðun íslenskra stjórnvalda í samræmi við lög nr. 13/1984 um framsal sakamanna og aðra aðstoð í sakamálum. Hitt er svo annað mál að flest virðist benda til þess að gildur framsalssamningur sé til staðar á milli Íslands og Bandaríkjanna.

mbl.is/Ásdís Ásgeirsdóttir
Húsakynni áfrýjunardómstólsins í San Diego í Bandaríkjunum.
Húsakynni áfrýjunardómstólsins í San Diego í Bandaríkjunum. Wikipedia/Coolcaesar
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert