Frjálsi fjárfestingabankinn hf. skorar í nýjasta tölublaði Lögbirtingablaðsins á Björn Braga Mikkaelsson, sem í júní árið 2009 eyðilagði hús sitt við Hólmatún á Álftanesi með beltagröfu, að greiða tæplega 97 milljóna króna skuld sína við bankann.
Á þjóðhátíðardaginn 2009 eyðilagði Björn Bragi hús sitt við Hólmatún á Álftanesi með beltagröfu auk þess sem hann urðaði fjölskyldubílinn. Atburðurinn vakti mikla athygli í fjölmiðlum á sínum tíma en í janúar í fyrra var Björn Bragi dæmdur fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur í 18 mánaða fangelsi fyrir fjársvik, skilasvik og stórfelld eignaspjöll.
Í greiðsluáskoruninni kemur fram að ástæða þess að bankinn auglýsir eftir Birni Braga með þessum hætti sé sú að hann sé skráður óstaðsettur í hús og að ekki hafi tekist að birta áskorunina fyrir honum. Telur bankinn sig því ekki eiga neitt annað úrræði en þetta.