Blaðamennirnir Stígur Helgason og Friðrika Benónýsdóttir hafa sagt upp störfum á Fréttablaðinu. Friðrika sagði í samtali við mbl.is að hún hefði sagt stöðu sinni lausri í gær og að hún hefði í hyggju að vinna uppsagnarfrest sinn. Hún vildi hins vegar ekki tjá sig frekar um málið.
„Ég hef verið viðloðandi þennan miðil vel á áttunda ár og hef svo sem áður hugsað mér til hreyfings en ákvað að halda áfram því ég var umkringdur fólki sem ég var búinn að vinna með lengi,“ segir Stígur Helgason blaðamaður í samtali við mbl.is og bendir á að mikið rót sé nú á Fréttablaðinu og því fínt að skipta um vettvang.
Stígur sagði upp munnlega í gær og gerir hann ráð fyrir því að vinna uppsagnarfrest sinn.
Greint var frá því í gær að Sigríður Björg Tómasdóttir, fréttastjóri á Fréttablaðinu, og Sunna Valgerðardóttir blaðamaður hefðu einnig sagt upp störfum á blaðinu.