Nýfæddum börnum fylgja talsverð útgjöld, en konu sem keypti fyrir skömmu barnabílstól ofbauð verðlagið á stólunum. Áður en hún keypti stólinn gerði hún verðsamanburð og fór síðan af stað til að kaupa stól þar sem verðið var lægst, en hann átti að kosta samtals 63.799 kr. Verðið hafði hins vegar hækkað og kostaði hann nú 84.800 kr. Hækkunin er 33%.
Konan gerði verðsamanburð á bílstólum í maí, en auk bílstóls ætlaði hún að kaupa „base” (festingu) fyrir stólinn. Í maí kostaði stóllinn 33.900 kr. og festingin 29.899 kr., samtals 63.799 kr. Þegar konan kom í verslunina í júlí kostaði stóllinn 46.900 og festingin 37.900 kr., samtals 84.800 kr. Hækkunin var 21.000 kr. eða 33%.
Konan bað um skýringu hjá versluninni á þessari miklu hækkun og svarið var „ný sending“. Konan sagðist ekki átta sig á hækkuninni í ljósi þess að gengi krónunnar hefði ekkert hækkað í sumar. Niðurstaðan varð sú að verslunin féllst á að veita henni 5% afslátt. Hún var með 30% afslátt af barnabílstólum frá tryggingafélagi sínu. Hún þurfti því að borga 59.360 fyrir stólinn og festinguna, en ef hún hefði fengið stólinn á gamla verðinu hefði hún þurft að borga 44.659 kr. Munurinn er 14.701 kr.
Jóhannes Gunnarsson, formaður Neytendasamtakanna, segist undrandi á þessari miklu hækkun á bílstólnum. „Ég skil ekki svona hækkun. Ef innkaupsverð hefur hækkað eða gengi krónunnar lækkað ætti viðkomandi verslun að sýna fram á það svart á hvítu að það sé tilefni til svo mikillar hækkunar. Mér finnst þetta vera allt of mikil hækkun til að það sé hægt að skýra hana með nýrri sendingu, a.m.k. hefur gengið ekki breyst.“