Stjórnvöld eru að endurskoða svokallaða fjárfestingaáætlun sem ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttir kynnti í maí á síðasta ári. Flest bendir til að stórum hluti af þeim útgjöldum sem þar átti að stofna til verði ekki hrundið í framkvæmd. Áætlunin gerði ráð fyrir að fjárfest yrði fyrir 39 milljarða á árunum 2013-2015.
„Þetta er bara einhver loforðalisti og þetta er eitt af því sem verið er að skoða. Það liggur alveg fyrir að við gerð fjárlagafrumvarpsins verða endurskoðaðar ákvarðanir sem fyrri ríkisstjórn tók. Þá liggur beinast við að skoða fyrst loforð um ný útgjöld,“ sagði einn heimildarmanna mbl.is þegar spurt var hvort hætt yrði við fjárfestingaáætlunina.
Í fjárfestingaáætluninni var gert ráð fyrir að ráðist yrði í ný verkefni fyrir 39 milljarða á árunum 2013-2015, þar af 16,4 milljarða á þessu ári.
Fjármagn til áætlunarinnar átti að koma úr tveimur áttum. Annars vegar áttu 17 milljarðar að koma af sérstöku veiðigjaldi og leigu aflahlutdeilda, en ríkisstjórnin áætlaði að aukin veiðigjöld skiluðu 40-50 milljörðum króna næstu þremur árum. Hins vegar áttu 22 milljarðar að koma af arði og eignasölu hluta ríkisins í bönkum. Ríkisstjórnin gerði ráð fyrir að allt að 75 milljarðar komi í hlut ríkisins úr bönkunum næstu þrjú ár.
Upphaflega gerði ríkisstjórnin ráð fyrir að byrjað yrði að selja hlut ríkisins í bönkunum á þessu ári til að fjármagna fjárfestingaáætlunina í ár, en því var frestað og í stað þess var Landsbanka og Landsvirkjun gert að greiða meiri arð í ríkissjóð. Samkvæmt fjárfestingaáætluninni átti sala ríkiseigna og arðgreiðslur að skila 10,7 milljörðum á þessu ári. Sala ríkiseigna átti hins vegar að skila tekjum 2014-2015.
Tekjur af veiðigjöldum það sem af er ári nema 5,7 milljörðum. Ný ríkisstjórn hefur ákveðið að lækka veiðigjöld á næsta fiskveiðiári og þau verða því lægri en gert var ráð fyrir í fjárfestingaáætlun fyrri ríkisstjórnar.
Meðal verkefna sem fjárfestingaáætlunin gerði ráð fyrir voru aukið fjármagn í skapandi greinar, ferðaþjónustu, Græna hagkerfið, rannsóknar- og tækniþróunarsjóði og fjárfestingar í samgöngumannvirkjum og fasteignum. Í fjármálaráðuneytinu er verið að fara yfir þessi fjárfestingaloforð. Alls óvíst er því hversu mikið af þeim verður hrundið í framkvæmd.