Ragnheiður Elín Árnadóttir, iðnaðarráðherra, stóð sig með stakri prýði við grillið í kvöld, þegar hún grillaði ofan í her af svöngum frumkvöðlum í Borgartúninu í dag. Ráðherrann tók sig vel út eins og sjá má á meðfylgjandi mynd.
„Við ákváðum að halda grillveislu til heiðurs frumkvöðlum á Íslandi,“ segir Stefán Þór Helgason, verkefnisstjóri hjá Klak Innovit. „Þetta er Startup Reykjavík sem stendur fyrir þessu. Það er samstarfsverkefni okkar og Arion banka. Verkefnið er 10 vikna þjálfunarbúðir sem 10 ný sprotafyrirtæki fara í gegnum.“
Fyrirtækin eru til húsa í Borgartúni 18 á móti Höfða. „Við ákváðum að bjóða ráðherranum að koma til að gerast grillmeistari hjá okkur. Þess vegna er hún með svuntu og húfu. Hún stóð sig alveg geysilega vel. Hún var reyndar spurð hvort hún mætti ekki taka manninn sinn með sér, því hún hefði aldrei grillað sjálf, en hún stóð sig svo með stakri prýði.“