Landspítalinn er að vinna í útfærslu á neyðaráætlun sem starfað verður eftir ef uppsagnir geislafræðinga verða að veruleika hinn 1. ágúst næstkomandi.
Hvorki er búið að virkja áætlunina né kynna hana á öllum einingum spítalans. Þetta segir Jón Hilmar Friðriksson, staðgengill forstjóra Landspítalans, í umfjöllun um mál þetta í Morgunlaðinu í dag.
„Það sögðu ekki allir upp þannig að við teljum okkur geta sinnt alvarlegum bráðatilfellum, allavega tímabundið,“ segir Jón Hilmar og bætir við að stjórnendur Landspítalans séu að kortleggja hvað röntgendeildin getur gert með þeim starfsmönnum sem hún hefur, en svo þurfi að forgangsraða með tilliti til þess.