Einungis þriðjungur Íslendinga hefur tilhneigingu til þess að treysta íslenskum stjórnmálaflokkum, samkvæmt niðurstöðum Eurobarometer-skoðanakönnun Evrópusambandsins sem gerð var í maí síðastliðnum og birt í vikunni. 34% Íslendinga treysta stjórnmálaflokkunum en 63% treysta þeim hins vegar ekki. Könnunin var gerð eftir síðustu þingkosningar hér á landi.
Hins vegar hefur vantraust til íslenskra stjórnmálaflokka minnkað verulega frá því að síðasta Eurobarometer-skoðanakönnun var gerð eða um 18%. Traust til þeirra hefur að sama skapi aukist um 19%. Staðan hér er svipuð og í Danmörku þar sem 62% treysta ekki stjórnmálaflokkum á móti 36% sem það gera.
Vantraust í garð stjórnmálaflokka er víða mikið í þeim ríkjum sem könnuð eru en skoðanakönnunin nær einkum til ríkja ESB en einnig ríkja sem sótt hafa um inngöngu í sambandið. Vantraust í garð stjórnmálaflokka er þannig yfir 80% í 19 af 33 ríkjum sem könnuð eru og 18 af 28 ríkjum ESB. Mest er traustið í garð stjórnmálaflokka á Möltu eða 46% á móti 42% sem vantreysta þeim.
47% treysta ríkisstjórninni og 57% Alþingi
Einnig var spurt um traust til ríkisstjórna í viðkomandi ríkjum. 47% Íslendinga segjast treysta ríkisstjórninni en 44% vantreysta. Traust til ríkisstjórnar Íslands jókst um 16% frá fyrri könnun og vantraust minnkaði um 21%. Vantraust er meira gagnvart ríkisstjórn viðkomandi ríkis í 29 af þeim 33 ríkjum sem könnuð eru og í 24 af 28 ríkjum ESB.
57% Íslendinga bera traust til Alþingis samanborið við 40% sem gera það ekki. Traust til þingsins hefur aukist um 25% frá fyrri skoðanakönnun ESB og vantraust minnkað að sama skapi um 24%. Traust til þjóðþingsins er aðeins meira í Danmörku (60%), Finnlandi (61%), Möltu (62%) og Svíþjóð (70%) af þeim ríkjum sem könnunin náði til.
75% Íslendinga treysta sveitarstjórnum
Mest er þó traust Íslendinga til sveitarstjórna samkvæmt skoðanakönnun ESB eða 75%, en 20% vantreysta þeim. Traust hefur aukist um 13% frá síðustu könnun og vantraust að sama skapi minnkað um sama hlutfall. Traust til sveitarstjórna er hvergi eins mikið í þeim ríkjum sem könnunin nær til en næst kemur Danmörk með 73% traust til sveitarstjórna.