Tvær þrettán ára stúlkur sátu á gólfi strætisvagns frá Sauðárkróki í Borgarnes, eða 217 kílómetra, í dag. Þær fengu ekki sæti vegna plássleysis og það sama gilti um fimm aðra farþega vagnsins. Að sögn móður annarrar stúlkunnar áttu þær að fá sæti þegar þau losnuðu en eftir tæplega fjögurra klukkustunda ferðalag sátu þær enn á gólfinu.
Að sögn Reynis Jónssonar, framkvæmdastjóra Strætó bs. er vagnstjórum vagnanna sem aka á milli Reykjavíkur og Akureyrar heimilt að taka ákveðinn fjölda farþega í vagnanna sem þurfa að standa.
„Þetta er grafalvarlegt mál,“ segir móðir annarrar stúkunnar, Jarþrúður Hanna Jóhannsdóttir, og bætir við að hún sé afar örg vegna málsins. „Það er ekki hægt að taka upp farþega þegar vagninn er þegar fullur.“ Hún segir að stúlkurnar hafi greitt fyrir farið, líkt og aðrir sem ferðuðust með vagninum.
Að sögn Reynis Jónssonar, framkvæmdastjóra Strætó bs., er vagnstjórum vagnanna sem aka milli Reykjavíkur og Akureyrar heimilt að taka ákveðinni fjölda standandi farþega í hverja ferð og eru vagnarnir tryggðir fyrir flutning á standandi farþegum. „Farþeganum er í sjálfsvald sett hvort hann tekur ferðina,“ segir Reynir.
Hann segir nokkuð algengt að þörf sé á að bæta við öðrum vagni fyrir ferðirnar milli Reykjavíkur og Akureyrar á föstudags- og sunnudagseftirmiðdögum. „Við teljum æskilegra að fólk sé spennt í belti ef þess er kostur,“ segir Reynir. „Hins vegar er það mjög slæmt ef ökutækið getur ekki tekið standandi farþega.“