Ásmundur tekjuhærri en Ólafur Ragnar

Ásmundur Friðriksson alþingismaður.
Ásmundur Friðriksson alþingismaður. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Ásmundur Friðriksson alþingismaður er með hærri laun á mánuði heldur en forseti Íslands, Ólafur Ragnar Grímsson, samkvæmt Tekjublaði Frjálsrar verslunar.

Samkvæmt blaðinu er Ásmundur, sem var áður sveitarstjóri í Garðinum, með 2,277 milljónir króna í laun á mánuði í fyrra á meðan Ólafur Ragnar var með 2,052 milljónir króna. Jóhanna Sigurðardóttir, þáverandi forsætisráðherra, var með 1,463 milljónir króna í laun á mánuði í fyrra.

Á lista yfir starfsmenn hagsmunasamtaka og aðila vinnumarkaðarins er nýráðinn framkvæmdastjóri LÍÚ, Kolbeinn Árnason, með hæstu launin í fyrra eða 3,947 milljónir. Á síðasta ári starfaði hann sem framkvæmdastjóri lögfræðisviðs skilanefndar Kaupþings.

Orri Hauksson, framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins, er í öðru sæti listans með 2,452 milljónir króna á mánuði og Hildur Árnadóttir, framkvæmdastjóri VR er í þriðja sæti með 2,104 milljónir á mánuði.

Gunnar H. Hall, fjársýslustjóri, er sá embættismaður og forstjóri ríkisfyrirtækis sem er með hæstu launin á þeim lista á síðasta ári eða 2,430 milljónir króna. Björn Zoëga, forstjóri Landspítala, er í öðru sæti með 1,958 milljónir króna á mánuði og í þriðja sæti listans er Einar Karl Hallvarðsson, ríkislögmaður, með 1,412 milljónir króna.

Nauðsynlegt er hins vegar að árétta að um er að ræða skattskyldar tekjur á árinu 2012 og þurfa þær ekki að endurspegla föst laun viðkomandi. Munurinn getur falist í launum fyrir setu í nefndum og önnur aukastörf og hlunnindi vegna kaupréttarsamninga.

Í launum sumra kann að vera falinn bónus vegna ársins 2011 en var greiddur árið 2012, segir í Tekjublaðinu. Miðað er við útsvarsstofn samkvæmt álagningarskrá.

„Í tölunum eru ekki fjármagnstekjur, t.d. af vöxtum, arði, eða sölu hlutabréfa. Sleppt er skattfrjálsum dagpeningum, bílastyrkjum og greiðslum í lífeyrissjóði,“ segir enn fremur í Tekjublaði Frjálsrar verslunar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert