Með 18,8 milljónir á mánuði

Það eru útgerðarmenn sem eru með hæstu tekjurnar á síðasta …
Það eru útgerðarmenn sem eru með hæstu tekjurnar á síðasta ári samkvæmt Tekjublaði Frjálsrar verslunar mbl.is/RAX

Sveinlaugur Kristjánsson, framkvæmdastjóri Sjóvíkur er með 18,78 milljónir króna á mánuði á laun samkvæmt Tekjublaði Frjálsrar verslunar. Kristján Vilhelmsson útgerðarstjóri Samherja er með 15,6 milljónir á mánuði samkvæmt blaðinu.

Í þriðja sæti á lista blaðsins er Sigsteinn Páll Grétarsson, framkvæmdastjóri hjá Marel með 9,248 milljónir króna á mánuði.

Í blaðinu sem var að koma út eru birtar tekjur um þrjú þúsund einstaklinga víðsvegar af landinu. Könnunin byggir á álögðu útsvari eins og það birtist í álagningarskrám.

Finnur Árnason, forstjóri Haga, er tekjuhæsti forstjóri landsins en hann er með 8,358 milljónir króna í laun á mánuði. Guðmundur Marteinsson, framkvæmdastjóri Bónus, er í öðru sæti með 7,630 milljónir króna í laun á mánuði. Jón Guðmann Pétursson, forstjóri Hampiðjunnar, fylgir fast á eftir með 7,408 milljónir króna í laun.

Ef litið er til tekjulágra forstjóra þá eru þeir Karl J. Steingrímsson, framkvæmdastjóri hjá Pelsinum með 390 þúsund krónur í tekjur á mánuði, Karl Wernersson, framkvæmdastjóri Lyfja og heilsu með 230 þúsund krónur og Skúli Valberg Ólafsson, framkvæmdastjóri Kalan Capital með 213 þúsund krónur í laun á mánuði.

Nauðsynlegt er hins vegar að árétta að um er að ræða skattskyldar tekjur á árinu 2012 og þurfa þær ekki að endurspegla föst laun viðkomandi. Munurinn getur falist í launum fyrir setu í nefndum og önnur aukastörf og hlunnindi vegna kaupréttarsamninga.

Í launum sumra kann að vera falinn bónus vegna ársins 2011 en var greiddur árið 2012, segir í Tekjublaðinu. Miðað er við útsvarsstofn samkvæmt álagningarskrá.

„Í tölunum eru ekki fjármagnstekjur, td. af vöxtum, arði, eða sölu hlutabréfa. Sleppt er skattfrjálsum dagpeningum, bílastyrkjum og greiðslum í lífeyrissjóði,“ segir enn fremur í Tekjublaði Frjálsrar verslunar.

Þegar farið er yfir lista yfir ýmsa menn úr þjóðlífinu er Kristinn Björnsson, stjórnarmaður í Líflandi, með hæstu launin eða 6,732 milljónir króna á mánuði. Jóhann Tómas Sigurðsson er í öðru sæti með 6,690 milljónir og Ásgeir Guðjón Stefánsson, hjá High Liner Foods, er í því þriðja með 6,177 milljónir króna.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert