Nær allar umsóknir útlendinga samþykktar

Reglugerð Ögmundar þýddi að EES-borgarar sem vildu kaupa sér íbúð …
Reglugerð Ögmundar þýddi að EES-borgarar sem vildu kaupa sér íbúð hér á landi þurftu að sækja um leyfi til innanríkisráðuneytisins. Nær allar umsóknir voru samþykktar. mbl.is/Sigurður Bogi

Með afnámi reglugerðar um fasteignakaup útlendinga hér á landi geta íbúar á EES-svæðinu keypt fasteignir og jarðir án þess að óska áður eftir leyfi frá innanríkisráðuneytinu. Íbúar utan EES þurfa hins vegar áfram að sækja um undanþágu frá lögum. Staða kínverska fjárfestisins Huang Nubu hefur því ekkert breyst við afnám reglugerðarinnar.

Ögmundur Jónasson, fyrrverandi innanríkisráðherra, kynnti drög að frumvarpi um breytingar á lögum um eignarrétt og afnotarétt erlendra aðila í byrjun þess árs. Frumvarpið varð aldrei að lögum. Skömmu áður en Ögmundur lét af ráðherraembætti gaf hann hins vegar út reglugerð um rétt útlendinga, sem falla undir EES-samninginn, til að öðlast eignarrétt eða afnotarétt yfir fasteignum.

Nær allir sem sóttu um leyfi fengu leyfi

Reglugerðin fól í sér að borgarar á Evrópska efnahagssvæðinu þurftu að sækja um leyfi til innanríkisráðuneytisins til að kaupa fasteignir hér á landi. Með hugtakinu fasteign er átt við íbúðarhúsnæði, sumarhús og jarðir.

Samkvæmt upplýsingum frá innanríkisráðuneytinu hefur ráðuneytið samþykkt nær allar umsóknir sem bárust frá EES-borgurum um kaup á íbúðarhúsum og sumarhúsum. Ekki hafi hins vegar verið eins auðvelt að fá leyfi til að kaupa jarðir.

Ástæðan fyrir því að Hanna Birna Kristjánsdóttir innanríkisráðherra ákvað að afnema reglugerðina var að hún taldi að reglugerðin samræmdist illa EES samningnum sem kveður á um frjálst flæði fjármagns innan EES eins og kom fram í frétt mbl.is í gær. Hún taldi reglugerðina á gráu svæði.

Afnám reglugerðarinnar þýðir að innanríkisráðuneytið skiptir sér ekki lengur af kaupum EES-borgar á húsnæði hér á landi og það sama á við um jarðir.

Útlendingar utan EES þurfa hins vegar áfram að sækja um leyfi til ráðuneytisins fyrir því að kaupa hér fasteignir, þar með taldar jarðir.

Stefnubreyting hjá stjórnvöldum?

Halldór Jóhannsson, talsmaður Huang Nubo, sagði í samtali við RÚV, í hádeginu að hann vonaði að ákvörðun Hönnu Birnu bæri vott um stefnubreytingu nýrra stjórnvalda og að Huang fengi í framhaldinu að hefja fjárfestingar á Grímsstöðum á Fjöllum. Hvort ákvörðun Hönnu Birnu á eftir að leiða til stefnubreytingar varðandi fasteignakaup útlendinga almennt hér á landi á eftir að koma í ljós. En til þess að eitthvað gerist í málefnum Huang þarf að taka nýja ákvörðun. Reglugerðarbreytingin nú breytir engu um formlega stöðu málsins.

Lögin gefa ráðherra of opna heimild til að veita undanþágur

Í lögfræðiáliti sem fylgdi frumvarpi Ögmundar Jónassonar benda Eyvindur G. Gunnarsson, dósent við lagadeild Háskóla Íslands, og Valgerður Sólnes lögfræðingur á að heimild ráðherra til afskipta af fasteignakaupum ráðherra sé rúm og óljóst orðuð, en í lögunum, sem eru frá árinu 1966, segir að ráðherra hafi heimild til að veita undanþágu frá lögunum „ef annars þykir ástæða til“.

Eyvindur og Valgerður segja að færa megi rök fyrir því að víðtækt framsal lagasetningarvalds að þessu leyti sé óheppilegt. Auðvelt sé að færa rök fyrir því að eðlilegast sé að löggjafinn sjálfur ákveði í meginatriðum hvernig haga skuli undanþágum frá skilyrðum laganna, en ráðherrann sé ekki með opna heimild til að ákveða hvernig veita skuli undanþágu frá lögum.

Eyvindur og Valgerður segja einnig að núverandi réttarstaða, með þeim víðtæku undantekningum sem leiddar hafa verið í lög, hafi „ekki orðið til á grundvelli heildstæðrar stefnumótunar af hálfu löggjafans, heldur miklu fremur til þess að bregðast við aðstæðum á hverjum tíma.“ Þörf sé því á að Alþingi marki stefnu varðandi heimildir útlendinga til að kaupa fasteignir hér á landi, þar á meðal jarðir.

Huang Nubo þarf áfram að sækja um leyfi til innanríkisráðuneytisins …
Huang Nubo þarf áfram að sækja um leyfi til innanríkisráðuneytisins þó að reglugerðin hafi verið afnumin. mbl.is/Ernir Eyjólfsson
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert