Eygló Harðardóttir, félags- og húsnæðismálaráðherra, hefur ákveðið að skipa verkefnisstjórn og samvinnuhóp honum til ráðgjafar til að móta tillögur að framtíðarstefnu í húsnæðismálum. Verkefnisstjórnin mun kanna hvaða fyrirkomulag við fjármögnun almennra húsnæðislána er hagkvæmast og gera tillögur um hvernig megi hrinda því í framkvæmd.
Jafnframt verður skoðað hvernig tryggja megi virkan leigumarkað hér á landi og einnig skilvirk félagsleg úrræði fyrir þá sem á þurfa að halda. Í því sambandi verður skoðað hvernig stjórnvöld geta sinnt afmörkuðu hlutverki sem felst í því að veita þjónustu í almannaþágu á húsnæðislánamarkaði.
Í fréttatilkynningu frá ráðuneytinu segir að ákvörðun um skipun verkefnisstjórnarinnar sé í samræmi við þingsályktun um aðgerðir vegna skuldavanda heimila sem samþykkt var á Alþingi í sumar. Verkefnisstjórnin á að skila félags- og húsnæðismálaráðherra tillögum að framtíðarstefnu í húsnæðismálum í byrjun næsta árs.
Verkefnisstjórninni er ætlað að safna gögnum um húsnæðismál, greina þau í samvinnu við óháða sérfræðinga, framkvæma stöðumat og móta á þeim grunni stefnu um framtíðarskipan húsnæðismála. Miðað er við að verkefnisstjórnin byggi tillögur sínar meðal annars á greiningu sem unnin verður af innlendum og erlendum ráðgjöfum. Jafnframt verði byggt á vinnu starfshóps um framtíðarhorfur og framtíðarhlutverk Íbúðalánasjóðs, auk annarrar vinnu sem þegar hefur átt sér stað og getur nýst við stefnumótunina.