Druslur flykktust í bæinn

„Ég er orðlaus, það er bara þannig,“ segir María Rut Kristinsdóttir, ein skipuleggjenda druslugöngunnar sem haldin var í miðbænum í dag. Gengið var frá Hallgrímskirkju niður á Austurvöll en með göngunni vildu aðstandendur göngunnar vekja athygli á kynferðisbrotum og færa ábyrgðina frá þolendum til gerenda.

Með harðsperrur í kjálkunum

„Þetta var magnað, allt saman; fjöldinn sem mætti, ræðurnar, skemmtiatriðin, veðrið og öll umgjörðin, þetta small bara allt. Ég er með harðsperrur í kjálkanum, ég er búin að brosa svo mikið.“

Aðspurð hversu margir hafi mætt svarar María Rut: „Ég bara kann ekki að telja svo hátt! En þetta er klárlega aukning frá því í fyrra, þegar mættu 5000 manns. Það var halarófa niður Skólavörðustíginn og þegar við vorum að koma yfir Lækjargötuna var enn fólk á Skólavörðustíg að ganga. Austurvöllur var alveg pakkaður.“

Á Austurvelli var svo haldinn útifundur. „Við skipuleggjendurnir opnuðum dagskrá og María Lilja var kynnir. Dagur B. Eggertsson var með alveg ótrúlega flotta ræðu og kom skilaboðunum mjög skýrt á framfæri. Brynhildur Björnsdóttir úr Fáðu já hópnum hélt líka ræðu sem var mjög beinskeytt og þörf.“ Þá komu fram Samaris, Kött Grá Pjé og Gísli Pálmi.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert