„Ég er orðlaus, það er bara þannig,“ segir María Rut Kristinsdóttir, ein skipuleggjenda druslugöngunnar sem haldin var í miðbænum í dag. Gengið var frá Hallgrímskirkju niður á Austurvöll en með göngunni vildu aðstandendur göngunnar vekja athygli á kynferðisbrotum og færa ábyrgðina frá þolendum til gerenda.
„Þetta var magnað, allt saman; fjöldinn sem mætti, ræðurnar, skemmtiatriðin, veðrið og öll umgjörðin, þetta small bara allt. Ég er með harðsperrur í kjálkanum, ég er búin að brosa svo mikið.“
Aðspurð hversu margir hafi mætt svarar María Rut: „Ég bara kann ekki að telja svo hátt! En þetta er klárlega aukning frá því í fyrra, þegar mættu 5000 manns. Það var halarófa niður Skólavörðustíginn og þegar við vorum að koma yfir Lækjargötuna var enn fólk á Skólavörðustíg að ganga. Austurvöllur var alveg pakkaður.“
Á Austurvelli var svo haldinn útifundur. „Við skipuleggjendurnir opnuðum dagskrá og María Lilja var kynnir. Dagur B. Eggertsson var með alveg ótrúlega flotta ræðu og kom skilaboðunum mjög skýrt á framfæri. Brynhildur Björnsdóttir úr Fáðu já hópnum hélt líka ræðu sem var mjög beinskeytt og þörf.“ Þá komu fram Samaris, Kött Grá Pjé og Gísli Pálmi.