Eldri borgarar tjútta á dansleik eftir dagsformi

Dansað á DAS
Dansað á DAS Árni Sæberg

„Á elliheimilum er svo mikið af fólki með mikla og djúpa reynslu af menningu og listum, það er svo ótrúlega gaman að virkja það. Maður þarf bara aðeins að styðja við fólkið og þá getur það blómstrað,“ segir Böðvar Magnússon, en hann hefur starfað á Hrafnistu í Hafnafirði í 13 ár og er nú hljómsveitarstjóri innanhúss bandsins. Hljómsveitin kallast DAS-bandið og heldur uppi dansleik á Hrafnistu á hverjum föstudegi frá klukkan 13:30-14:30.

Meðlimir bandsins eru á áttræðis- og nýræðisaldri og eru bæði heimilismenn Hrafnistu og velunnarar sem eru ellilífeyrisþegar. Bandið er skipað 11 meðlimum, en þar á meðal segir hann vera fantagóðan söngvara, píanóleikara, trommuleikara, gítarleikara og bassaleikara. Hinir meðlimirnir spila allir á harmonikku.

Fjöldi hljómsveitarmeðlima fer eftir dagsformi

Böðvar byrjaði fyrir þrettán árum að spila með Kristjáni Þorkelssyni, heimilismanni á Hrafnistu og hefur fólk síðan verið að bætast í hópinn, en fjöldinn fer þó einnig eftir dagsformi meðlima. „Þetta er ótrúlega skemmtilegt og gengur vel hjá okkur. Við gerum þetta fyrir ánægjuna og ég held að ástæðan fyrir löngu biðlistunum sé að fólk lifi einfaldlega svo lengi við svona skemmtilegar aðstæður,“ segir hann glettinn.

Fært sig úr gömlu dönsunum yfir í amerískt tjútt

Vel er mætt á dansleiki og heimilismenn bíða ávallt spenntir eftir að fá að stíga dansinn. Þá segir Böðvar að gaman sé að fylgjast með dansstílnum þróast yfir árin. „Á þessum 13 árum hef ég mikið tekið eftir breytingum. Fólk hafði áður gaman af því að dansa skottís og vínarvals, en það er að minnka núna. Þessi kynslóð sem nú er hér, á milli 75-95 ára, kynntist nýju dönsunum og þeim fylgja Suður-amerískir dansar og tjútt frá hermönnunum á stríðsárunum.“ Hann segir hljómsveitina bregðast við breytingum og haga lagavali eftir þeirri kynslóð sem þátt tekur.

„Við erum að taka gömlu lögin sem voru í sjómannaþáttunum og óskalögum sjúklinga. Gömul íslensk dægurlög og mikið af Elvis Presley lögum. Nú er djæfið einnig að koma sterkt inn og mikið af fólki er hingað komið sem hefur verið í dansskólum.“

Snúa sér í hringi á hjólastólum

Gætt er að því að allir geti skemmt sér á dansleikjunum. „Á öllum dansleikum rekum við alla út af dansgólfinu á miðju balli og þá er eingöngu leyfilegt fyrir þá sem eru með göngugrind eða í hjólastólum að dansa. Þetta virkar vel og þeir geta snúið sér í hringi á hjólastólunum. Gólfið er alveg jafn troðfullt á þessum mínútum líkt og öðrum.“

Heimilismenn koma oft með dansfélaga á ballið og segir Böðvar að mikið af gestum komi að jafnaði á böllin. „Ég er afskaplega hrifinn af því að aðstandendur eru oft að koma og hitta þau á þessum tímum og hjálpa þeim að dansa.“ Þá segir hann annað fólk koma til þess eins að fylgjast með því gaman er að horfa á fólk dansa svo vel og lifa lífinu lifandi. „Það er langt því frá að hér sitji bara fólk með auðar hendur.“

Halda sveitaball í Grímsnesi um helgina

DAS-bandið lætur ekki þar við sitja að halda vikulegt ball á Hrafnistu, því hljómsveitin heldur einnig sveitaball á Gömlu Borg í Grímsnesi í kvöld. Ballið verður frá klukkan níu til miðnættis og segir Böðvar að heimilismenn bíði dansleiksins með mikilli eftirvæntingu. „Þetta er verður mikið ævintýri og allir hressast við svona viðburð.“

„Þetta er telst nú mjög snemma um kvöldið. Böll í dag byrja vanalega eftir miðnætti og standa til fjögur,“ segir Böðvar gáttaður á spurningu blaðamanns um hvort ballið sé ekki í seinna lagi fyrir dansleik eldri borgara. „Þetta er bara á sama tíma og í gamla daga, þá voru böllin frá átta til miðnættis. Mörg skemmtileg sveitaböll hafa farið fram í þessu sögufræga húsi. Þá sátu stelpurnar gjarnan hringinn í kringum salinn og strákanir stóðu fyrir utan. Þegar fyrstu tónarnir heyrðust frá hljómsveitinni, sem yfirleitt voru harmonikkutónar, fóru strákarnir svo inn.“

Böðvar segir kynslóðina sem nú er á elliheimili kunna að skemmta sér. „Þetta er fólk sem alltaf hefur dansað. Í gamla daga þurfti fólk að skemmta sér sjálft. Það var ekkert í boði, ekkert sjónvarp eða neitt og ef þú varst ekki sjálfur að skemmta sér að þá var bara einfaldlega ekki gaman.“

Kór og myndlistasýningar

Heimilismenn á Hrafnistu eru einnig hvattir áfram í öðru en hljóðfæraleik og dansi, því kór er þar starfræktur auk þess sem reglulega eru haldnar myndlistarsýningar. „Í kórnum eru eingöngu heimilismenn. Hér er bæði mikið af fólki sem hefur mikla reynslu og hefur verið í kór árum saman ásamt fólki sem alltaf hefur ætlað að fara í kór, en aldrei fyrr haft tíma. Þegar fólk kemur inn á stofnun þar sem það fær góða þjónustu léttist margt í kring. Maður getur farið að dansa og syngja í staðinn fyrir að elda mat og muna eftir að slökkva á  eldavélinni.“

„Heimilismennirnir sem hér dveljast eru menningararfur, þetta er gríðarlega mikið af hæfileikaríku fólki sem lifað hefur sínu listræna- eða menningarlífi og nauðsynlegt er að styðja við það og viðhalda hæfileikunum.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert