„Hræðilegt meðan á því stóð“

Sleggjuháfur eins og sá sem varð á vegi Jóns Júlíussonar …
Sleggjuháfur eins og sá sem varð á vegi Jóns Júlíussonar við Pensacola.

„Þetta var skelfileg lífsreynsla en sem betur fer meiddist enginn og hákarlinn hélt á endanum í burtu,“ segir Jón Júlíusson, sem búsettur er á Flórída í Bandaríkjunum, við fréttavef Morgunblaðsins.

Í gær komust hann, bróðir hans og unnusta og barn þeirra í návígi við sleggjuháf við ströndina í Pensacola í Flórída.

Skýrt var frá málinu á bandarísku sjónvarpsstöðinni ABC í dag og þar meðal annars rætt við Jón.

„Við vorum í sjónum rétt við ströndina um hádegisbil og héldum fyrst að börn fjölskyldunnar sem var við hliðina á okkur væru að kafa í sjónum rétt hjá okkur. En svo áttaði ég mig á að þarna var hákarl á ferð og þá beið ég ekki boðanna, heldur hugsaði fyrst og fremst um að við kæmust í snatri upp úr sjónum.

Það varð mikið uppistand í sjónum og á ströndinni, fólk hrópaði og hvatti aðra til að koma sér á land. Er við vorum komin upp úr tók ég síma minn og tók upp myndband af hákarlinum,“ segir Jón í samtalinu við mbl.is.

„Þegar hann var næst okkur voru 15 til 20 metrar á milli en hann synti síðan lengi hringinn í kringum mann sem var að kafa við ströndina. Bróðir minn hljóp út í sjóinn til að verða honum til hjálpar ef dýrið léti til skarar skríða gegn manninum.

Þetta var allt hræðilegt meðan á því stóð, mikil skelfing greip um sig meðal viðstaddra og adrenalínið spýttist um æðar. Það var eins og hákarlinum lægi ekkert á að yfirgefa svæðið þegar reynt var að flæma hann burt. En til allrar hamingju lét hann sig hverfa um síðir. Ég hef oft áður komið niður á þessa strönd, en aldrei áður séð hér hákarl,“ segir Jón sem búsettur hefur verið í Flórída um árabil.

Jón Júlíusson tók tvö myndbönd af sleggjuháfinum og tilraunum til að flæma hann á brott. Þessi myndbönd eru hér að neðan, fyrst hið lengra:

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert