Hanna Birna Kristjánsdóttir innanríkisráðherra tók í gær á móti japanska umhverfisráðherranum, Nobutero Ishihara, í Þingvallabænum þar sem þau áttu viðræðufund en japanski ráðherrann hefur dvalið hér síðustu daga og átt viðræður við umhverfisráðherra og iðnaðarráðherra.
Nobutero Ishihara og fylgdarlið hans kom til Þingvalla um hádegi í gær og hittust ráðherrarnir fyrst á Hakinu ofan Almannagjár og gengu síðan niður Almannagjá og að Lögbergi og héldu að því búnu í Þingvallabæinn þar sem ráðherrarnir ræddust við, segir í frétt á vef innanríkisráðuneytisins. Leiðsögumaður var Einar Á. E. Sæmundsen, fræðslufulltrúi þjóðgarðsins, og fræddi hann gestina um jarðfræði og sögu Þingvalla og greindi frá sögu bústaðar forsætisráðherra og Þingvallakirkju.
Fram kom í viðræðum ráðherranna að löng og mikil tengsl Japans og Íslands væru báðum þjóðum þýðingarmikil enda næðu þau til fjölmargra sviða svo sem viðskipta, orkumála og menningar. Innanríkisráðherra sagði íslensk stjórnvöld fylgjast náið með rannsóknum og þróun á norðurslóðum og þeim tækifærum sem geta falist í nýjum flutningaleiðum og siglingum þar.
Ráðherrarnir ræddu einnig um efnahagsmál og sagði japanski umhverfisráðherrann að ný ríkisstjórn landsins hefði sett fram áætlun um aðgerðir í efnahagsmálum sem meðal annars miðuðu að því að auka opinbera fjárfestingu og að hvetja einkageirann til aukinna fjárfestinga. Þá greindi japanski ráðherrann frá því að á næsta ári myndi Japan útnefna sendiherra til starfa á Íslandi en sendiherra landsins í Osló hefur gegnt embætti sendiherra gagnvart Íslandi.
Að lokinni heimsókn til Þingvalla héldu erlendu gestirnir að Gullfossi og Geysi og í morgun hélt japanski ráðherrann héðan til Frakklands.