„Ég veit ekki hvernig þetta endar, en ég vona að ég missi ekki húsið,“ segir Elsa Lára Arnardóttir, þingmaður Framsóknarflokksins frá Akranesi. Hún fór í gegnum 110%-leiðina fyrir þremur árum, en fékk nýverið rukkun frá Arion banka upp á 5,8 milljónir. Hún þarf að borga þessa upphæð fyrir 1. ágúst.
„Við fórum í gegnum 110%-leiðina fyrir þremur árum. Síðan missti maðurinn minn vinnuna og hann var tekjulaus í 2-3 mánuði í fyrra. Við urðum því tveimur mánuðum á eftir með íbúðalánin. Bankinn lítur svo á að við höfum verið í vanskilum þó að við höfum alltaf verið að borga, þ.e. elsta gjalddagann. Þetta varð nóg til þess að við teljumst hafa brotið þennan samning um 110-leiðina. Við fengum því rukkun upp á 5,8 milljónir sem við eigum að borga í einu lagi 1. ágúst,“ segir Elsa Lára.
Elsa Lára sagði að þetta hefði komið sér á óvart vegna þess að hún hefði haldið að 110% leiðin fæli í sér niðurfellingu á hluta lánsins.
„Ég er búin að hafa samband við bankann og þar á bæ segjast þeir hafa haft samband við mig í maí og boðið mér að klára vanskilin. Þau töluðu hins vegar ekki við mig og ekki manninn minn heldur. Það er alveg á hreinu. Þau segjast hafa boðið mér að greiða upp vanskil vegna þessara tveggja mánaða og þá myndu þeir fella niður þessa 5,8 milljónir ef undan eru skildar tvær milljónir sem áttu að fara fyrir aftan íbúðalánin og bætast við þar.
Ég er að reyna að semja við bankinn um að fá allavega þetta. Það væri betri leið en að missa húsið. Við ráðum a.m.k. ekki við þessar 5,8 milljónir.“
Elsa Lára sagðist í fyrstu hafa fengið algert áfall að fá rukkun upp á 5,8 milljónir. „Ég sat bara eins og lömuð og ef ég á að vera hreinskilin þá fór ég að grenja. Nú er ég bara reið yfir þessari meðferð. Ég er hins vegar viss um að ég komist yfir þetta. Er ekki sagt að það sem drepur mann ekki styrkir mann?“
Elsa Lára sagðist telja líklegt að fleiri væru í þeirri stöðu að hafa fengið svona bréf eða ættu eftir að fá svona bréf frá bankanum eftir að hafa gengið í gegnum 110%-leiðina. Það mætti lítið koma upp á hjá fólki sem væri með háa greiðslubyrði til að ekki væri hægt að standa við áætlun um greiðslur af lánum.
Elsa Lára sagði að margt fólk á hennar aldri væri í þessari erfiðu stöðu með íbúðalánin. „Það er fjöldinn allur af fólki í sömu sporum og ég og þetta er ein af ástæðum þess að ég ákvað að gefa kost á mér til þings.“
Elsa Lára tók fasteignalán hjá Arion banka árið 2007. Lánsupphæðin var 26 milljónir. Höfuðstóll lánsins stendur núna í 39 milljónum, en væri í 45 milljónum ef 110% leiðin hefði ekki komið til. „Höfuðstóll lánsins er núna tæplega þremur milljónum hærri en hann var fyrir þremur árum þegar við fórum í 110-leiðina. Ég tel að 110%-leiðin sé góð að því leyti að hún viðheldur greiðsluvilja hjá fólki, en til langs tíma er þessi leið ekki nægjanleg. Það eru önnur öfl í gangi sem hafa áhrif á lánin sem veldur því að afborgunin hækkar. Það hefði þurft að setja þak á verðtryggingu eða með öðrum hætti tryggja betur stöðu lántaka,“ sagði Elsa Lára.