Greiðslukortavelta erlendra ferðamanna í júní jókst alls um 18,1% frá sama mánuði í fyrra og nam næstum 9,8 milljörðum króna.
Erlendir ferðamenn vörðu mestu í gistingu, næstmestu í verslun og þar næst í ýmsa skipulagða ferðaþjónustu eins og skoðunarferðir og hvalaskoðun, segir í tilkynningu frá Rannsóknasetri verslunarinnar.
Eyða 24% meira á veitingahúsum
„Veitingahús njóta góðs af auknum ferðamannastraumi til landsins því ferðamenn greiddu rúmlega 1,1 milljarð kr. með greiðslukortum fyrir veitingar í júní sem er um 24% aukning frá júní í fyrra. Þá greiddu erlendir ferðamenn næstum 1,8 milljarð. kr. með kortum sínum í verslunum hér á landi, sem var 13% hærri upphæð en í júní í fyrra. Fjórðungsaukning var í erlendri kortaveltu í dagvöruverslunum og 17% aukning í Fríhöfninni, svo dæmi séu tekin,“ segir í tilkynningu.
Útlendingar greiddu í júní 21 milljón kr. með kortum fyrir ferjuflutninga sem er aukning um 156% frá síðasta ári. Líklega er þar um að ræða mikil aukning ferðamanna til Vestmannaeyja og um Breiðafjörð.
Kortavelta vegna gistingar á tjaldstæðum og öðrum gististöðum en hótelum og gistiheimilum, jókst um 119% í júní frá sama mánuði í fyrra. Erlend kortavelta á þessum gistisvæðum nam 9 milljónum í júní síðastliðnum sem er þó aðeins brot af greiðslum vegna hótelgistinga sem var um 2,5 milljarðar kr.