Hann gerði heiminn aðeins betri

„Það er miklu fargi af mér létt að vita að þyngsti og furðulegasti liður ákærunnar hafi verið felldur brott,“ segir Birgitta Jónsdóttir, formaður Pírata, en Bradley Manning var í dag sýknaður af ákæru um að hafa aðstoðað óvini Bandaríkjanna. Hann var hins vegar fundinn sekur um 20 önnur ákæruatriði og getur því enn hlotið þungan dóm.

„Það eru enn veigamiklar ákærur þarna inni og ekki er því fyrirséð hvað hann muni dvelja lengi í fangelsi, það er mögulegt að hann muni aldrei komast út. Það má þó telja sérstaklega mikilvægt að fallið hafi verið frá þessu tiltekna ákæruatriði, ekki bara fyrir Manning, heldur fyrir okkur öll.“

Ekki sama um örlög Mannings

Birgitta og aðrir stuðningsmenn Mannings á Íslandi komu saman á Kaffi Reykjavík í dag og horfðu á beina útsendingu þegar dómurinn var kveðinn upp. „Við erum hérna saman komin til þess að sýna Manning stuðning og sýna að okkur sé ekki sama um örlög hans. Þá erum við hér einnig saman komin vegna þess að við erum því fylgjandi að almenningur hafi aðgang að upplýsingum til þess að hægt sé að taka upplýstar ákvarðanir.“

Gerði heiminn betri

Hún telur að upplýsingarnar sem Manning gerði aðgengilegar almenningi hafi sett þrýsting á stjórnvöld. „Nú er meiri þrýstingur á bandaríska herinn og NATO-herinn um að koma sér út úr þessum löndum. Þá kom til dæmis í ljós að bandaríski herinn framseldi fanga til Íraks, með þeirri vitneskju að þeir yrðu pyntaðir eða drepnir, en það var gert þvert á þeirra reglur. Fólk hefur einnig sagt mér að upplýsingarnar hefðu margar verið dropinn sem fyllti mælinn í að koma af stað lýðræðisbyltingu í Túnis og Egyptalandi. Hann gerði heiminn okkar aðeins manneskjulegri og betri.“

Á að þurfa biðja um heimild fyrir leynd

Birgitta telur að upplýsingar eigi almennt ekki að teljast leyniupplýsingar og þá sérstaklega ekki á Íslandi. „Ég tel að mikil viðhorfsbreyting sé nú að eiga sér stað, en það er meðal annars vegna þess sem bæði Manning og Snowden gerðu. Það á ekkert að vera undir trúnaði heldur þarf að biðja um heimild til þess að leynd verði yfir einhverju og þá þarf að ríkja um það samfélagsleg sátt.“

„Ef hann hefði verið sakfelldur fyrir þetta alvarlegasta ákæruatriði hefði það verið endirinn á nútímablaðamennsku.“

Frétt mbl.is: Aðstoðaði ekki óvini Bandaríkjanna


mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert