Nýliðinn júlímánuður var sá kaldasti í Reykjavík síðan 2002 að sögn Veðurstofu Íslands. Meðalhiti í höfuðborginni mældist 10,6 stig og mældist úrkoma 72,2 mm og er það nærri 40% umfram meðallag í Reykjavík og það mesta í júlí síðan 2001.
Meðalhitinn á Akureyri var 11,2 stig. Veðurstofan segir að það hafi síðast gerst árið 2005 að meðalhiti í júlí hafi verið hærri á Akureyri en í Reykjavík.
Tíð var óhagstæð um landið sunnan- og vestanvert lengi fram eftir mánuðinum, með úrkomu og sólarleysi, en batnaði þá og varð síðasti þriðjungur mánaðarins hagstæður. Um landið norðaustan- og austanvert var tíð lengst af hagstæð.
Hæsti hiti mánaðarins mældist í Ásbyrgi hinn 21. júlí, 26,4 stig. Hæsti hiti á mannaðri stöð mældist sama dag á Skjaldþingsstöðum, 26,2 stig. Hiti komst í 20 stig 18 daga mánaðarins, þar af 14 í röð frá og með 18. til og með 30.
Eitt dægurhámarksmet var sett í mánuðinum. Það gerðist þegar hitinn á Egilsstaðaflugvelli fór í 26,1 stig hinn 10. Gamla dægurmetið var sett á Hallormsstað 1977 og var 25,3 stig.
Lægstur mældist hitinn -3,9 stig hinn 2. Í byggð mældist hitinn lægstur á Þingvöllum, -0,2 stig hinn 1. Lægsta lágmark á mannaðri stöð mældist á Grímsstöðum á Fjöllum hinn 3., 1,6 stig.
Eitt dægurlágmarksmet var sett í mánuðinum. Það var þegar hitinn fór niður í -3,9 stig á Brúarjökli hinn 2. Gamla metið var -2,9 stig sett á Staðarhóli í Aðaldal 1964. Heildarlágmarksmet júlímánaðar var ekki langt undan, það er -4,1 stig sem mældust í Möðrudal 21. júlí 1986.
Hlýtt hefur verið fyrstu sjö mánuði ársins, meðalhiti í Reykjavík er 5,2 stig og er það 1,1 stigi yfir meðaltali árin 1961 til 1990 en 0,3 stigum undir meðallagi síðustu tíu ára. Tímabilið er í 21. til 22. sæti meðalhita í Reykjavík. Upphaf mælinga er talið 1871. Á Akureyri er meðalhiti fyrstu sjö mánuði ársins 4,3 stig, 1,2 stigum ofan meðallags árin 1961 til 1990 og 0,1 stigi undir meðalhita síðustu tíu ár. Þessir sjö fyrstu mánuðir eru í 18. til 19. sæti meðalhita, upphaf mælinga er talið 1881.
Í Reykjavík er úrkoma það sem af er ári um 12% yfir meðallagi, en í meðallagi á Akureyri. Sólskinsstundir það sem af er ári eru um 100 umfram meðallag í Reykjavík, en í meðallagi á Akureyri.
Nánari upplýsingar um tíðarfarið í júlí á vef Veðurstofu Íslands.