„Þetta er algjört einelti“

Jón Gerald Sullenberger í verslun sinni á Dalvegi.
Jón Gerald Sullenberger í verslun sinni á Dalvegi. Golli / Kjartan Þorbjörnsson

„Þetta er algjört einelti. Þetta er í áttunda sinn sem þetta fólk kemur í búðina okkar. Þetta er sóun á peningum skattgreiðenda. Þeim væri betur varið í baráttu gegn sölu á eiturlyfjum en að athuga hvað er í Pringles-kartöfluflögum,“ segir Jón Gerald Sullenberger, kaupmaður í Kosti, í tilefni af heimsókn starfsmanna Heilbrigðiseftirlitsins í verslunina í dag.

Jón Gerald getur sér til um að tilefni heimsóknarinnar sé heilsíðuauglýsing Kosts í Fréttatímanum í dag þar sem vörur frá Norður-Ameríku í versluninni eru auglýstar.

Sama og fyrir síðustu jól

„Allt sem kemur frá Ameríku er bannað í augum eftirlitsins. Hvað heldur heilbrigðiseftirlitið eiginlega að sé í vörum á borð við Skittles, Hershey's-súkkulaði, Twix eða On the border tortilla chips? Við erum að undirbúa verslunarmannahelgi og það sama gerist og fyrir síðustu jól að hingað mæta tveir fulltrúar frá eftirlitinu með möppu og fylla innkaupakörfu af vörum. Þeir eru að taka sýnishorn af þessu.

Kannski er eftirlitið að fara í útilegu? Þetta er sama taktík og fyrir síðustu jól þegar þau mættu á Þorláksmessu. Hver er tilgangurinn? Það er ekki verið að kanna hvort hitastigið í kælunum sé í lagi - að hreint og fínt sé í kringum kjötið og grænmetið. Það er verið að fylla körfu af snakki og sælgæti. Ég á ekki aukatekið orð yfir þessu.

Matvælastofnun fær á hverju ári 1,2 milljarða af fé skattgreiðenda. Er verið að sóa þeim fjármunum í svona vitleysu?“ segir Jón Gerald. 

Fulltrúar Heilbrigðiseftirlits Hafnarfjarðar- og Kópavogssvæðis mættu í verslun Kosts á Dalvegi í dag, en MAST fer einnig með yfirumsjón með matvælaeftirliti á vegum heilbrigðiseftirlits sveitarfélaga.

Starfsmenn Heilbrigðiseftirlits Hafnarfjarðar- og Kópavogssvæðis við störf í Kosti í …
Starfsmenn Heilbrigðiseftirlits Hafnarfjarðar- og Kópavogssvæðis við störf í Kosti í dag. Ljósmynd/Kostur
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert