Hærra verðlag yfir þjóðhátíð

Veitingahús í Vestmannaeyjum hækka verð yfir verslunarmannahelgi til þess að …
Veitingahús í Vestmannaeyjum hækka verð yfir verslunarmannahelgi til þess að mæta auknum kostnaði mbl.is/GSH

„Við þurfum að skipta út matseðlinum, einfalda hann og hækka verðin til þess að anna traffíkinni yfir verslunarmannahelgina,“ segir Davíð Arnórsson, rekstrarstjóri veitingastaðarins Vinaminni í Vestmannaeyjum.

Óánægður viðskiptavinur lét í ljós gremju sína yfir hækkuðu verðlagi á facebook með stöðuuppfærslu sem sagði að skipt hefði verið um matseðil á staðnum þegar fjölskyldan var þar stödd og þegar búin að ákveða hvað ætti að fá sér. Komið var með svokallaðan þjóðhátíðarmatseðil þar sem verðið var um 500 krónum hærra fyrir hvern rétt.

Neyðarleg tímasetning

Davíð segist vel skilja reiðina og harmar það að skipt hafi verið um matseðil á þessum tímapunkti. „Þetta er vissulega neyðarlegt en einhvern tímann þurfti að skipta. Mistökin eru þau að skiptingin hefði átt að eiga sér stað í upphafi dagsins. Það er þó ekkert óvenjulegt við þetta nema tímasetningin.“

Hann segir flesta veitingastaði þurfa að grípa til ráðstafana yfir þjóðhátíðarhelgina. „Það þarf að einfalda matseðilinn til þess að hægt sé anna aukinni eftirspurn, það gefst ekki tími til þess að reiða fram vanalegu réttina.“ 

Skiptinguna segir hann hafa verið nauðsynlega þar sem hráefnin fyrir eldri seðilinn voru búin. „Á þjóðhátíðarmatseðlinum eru bara pizzur og hráefnin eru önnur. Við vorum búin að fylla eldhúsið af hráefnum í nýja seðilinn og vorum að klára þau af gamla seðlinum. Skiptingin var því nauðsynleg.“

Þá segir hann að í þessu einstaka dæmi hafi viðskiptavininum verið boðið að kaupa matinn á hinu upprunalega verði eftir að hann missti stjórn á skapi sínu og grætti meðal annars þjónustustúlkuna.

Hækka verð til að mæta kostnaði

Davíð segir það vera mikinn misskilning að veitingastaðir í bænum græði á þjóðhátíðarhelginni. „Við vorum með lokað í fyrra þar sem árið þar á undan kom svo illa út. Við þurfum að hækka verðin til að mæta auknum launakostnaði yfir helgina. Fleira starfsfólk þarf á vaktirnar og þau þurfa mannsæmandi laun yfir þessa helgi.“

Samkvæmt upplýsingum frá Neytendastofu er meginreglan frjálst verðlag og er fyrirtækjum því heimilt að hækka álagninguna um verslunarmannahelgina líkt og um hverja aðra helgi. Óheimilt er hins vegar að hækka verð frá því sem viðskiptavinur sér upphaflega og á því það verð sem sýnt er á meðseðli að gilda. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka