Jón Gnarr ritaði páfa bréf

Jón Gnarr borgarstjóri í Reykjavík.
Jón Gnarr borgarstjóri í Reykjavík. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Jón Gnarr borgarstjóri í Reykjavík hefur ritað bréf til borgarstjórans í Moskvu þar sem hann hvetur hann til að virða mannréttindi samkynhneigðra í borginni og leyfa göngu samkynhneigðra. Hann hefur einnig ritað páfa bréf um fordóma Vatíkansins í garð samkynhneigðra.

Jón flutti ræðu á alþjóðlegri ráðstefnu um mannréttindi sem haldin var í Antwerpen í Belgíu. Ráðstefnan var á vegum Mannréttindanefndar Antwerpenborgar og var haldin í tilefni af World Outgames 2013 sem haldnir eru í borginni og verða settir á laugardaginn.

Yfirskrift ráðstefnunnar er „From safe harbours to equality“. Þekktir baráttumenn og sérfræðingar í mannréttindum tóku til máls á ráðstefnunni. Borgarstjóri var einn af aðalræðumönnum ráðstefnunnar og í ræðu sinni fjallaði hann um mannréttindi á breiðum grundvelli og stöðu hinsegin fólks.

Ásamt borgarstjóra tóku meðal annarra til máls, Bernard Landry, fyrrverandi forsætisráðherra Quebec í Kanada, Jan Peumans, forseti flæmska þingsins og Matti Herrera Bower, borgarstjóri Miami Beach í Bandaríkjunum en Miami Beach verður gestgjafi World Outgames árið 2017. Þátttakendur og gestir ráðstefnunnar komu frá ríflega 35 löndum en henni lauk í dag.

Mannréttindi mikilvæg

Jón sagðist stundum vera spurður hvers vegna hann væri að leggja mannréttindabaráttu samkynhneigðra lið. Hann sagðist vera þeirrar skoðunar að mannréttindi væru meðal mikilvægustu mála stjórnmálamanna. Það væru ekki allir sem nytu ástúðar vina og ættingja. „Sum okkar eru fyrirlitin og hötuð. Sum okkar þurfa þola líkamlegt ofbeldi. Sum okkar eru meira að segja myrt.“

Jón sagðist þekkja fólk sem hefði orðið að líða vegna kynhneigðar sinnar. Hann nefndi m.a. amerískan vin sinn. Fjölskylda hans neitaði að tala við hann vegna þess að hann væri samkynhneigður. Fjölskyldan væri trúuð og væri þeirrar skoðunar að samkynhneigð væri hluti af hinu illa.

Var Jesú samkynhneigður?

„Ég spyr hvers vegna hefur hinn algóði guð skapað eitthvað sem hann hatar svona mikið? Og hvers vegna ætti hann að biðja trúbræður sína að leysa þetta vandamál? Væri það ekki mun auðveldara ef hann sjálfur leysti þetta vandamál? Þar að segja ef þetta er eitthvert vandamál. Hann er almáttugur. Þetta gengur ekki upp.

Ég vil varpa fram hugmynd. Kannski var Jesús hommi. Hann átti engar kærustur. Kannski var þetta ástæðan fyrir því að þeir krossfestu hann,“ sagði Jón Gnarr í ræðu sinni.

Jón sagðist hafa skrifað borgarstjóranum í Moskvu bréf og hvatt hann til að virða mannréttindi hinsegin fólks og að leyfa göngu samkynhneigðra. Hann sagðist ekki hafa fengið neitt svar. Jón sagðist einnig hafa sent páfa bréf vegna fordóma Vatíkansins í garð samkynhneigðra. Hann sagðist heldur ekki hafa fengið neitt svar við þessu bréfi, þó að það hefði verið skrifað á latínu.

Ræða Jóns Gnarr á ráðstefnunni

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert