Lúxushótel Óla Laufdal slær í gegn

Veitingamaðurinn Ólafur Laufdal opnaði fyrir nokkrum árum lúxushótelið Grímsborgir í Grímsnesi. Reksturinn hefur gengið afar vel í ár og fyrir stuttu tók hann í notkun 14 ný herbergi og hafin er smíði á annarri eins álmu. Nýtingin í vetur var að hans sögn sambærileg góðum sumarmánuði.

Í upphafi byggði Ólafur 6 hús en nú eru þau orðin 10 og á dagskránni að bæta við tveimur í viðbót. Þegar mest er að gera segir hann að 15 manns starfi á Grímsborgum og stundum sé fleira starfsfólk kallað til en bæði eru í boði stöðluð hótelherbergi með einkaverönd og aðgangi að heitum pottum allt upp í glæsileg einbýlishús með eldhúsi, gasgrilli og heitum pottum.

Gestina segir hann bæði vera Íslendinga sem viti að hverju þeir gangi þar sem hann hafi verið lengi í bransanum en flestir séu þó erlendir ferðamenn í góðum efnum. Húsin eru smíðuð frá grunni á staðnum og  framundan er smíði á nýju álmunni en einnig á nýjum og stærri veitingastað í stað þess sem nú er. 

Ólafur gengur líklega lengra enn flestir þegar að því kemur að veita góða þjónustu en líklega er besta dæmið þegar hann lék jólasvein á aðfangadag fyrir hóp franskra víngerðarmanna sem voru komnir til landsins yfir jólin ásamt fjölskyldum og börnum. Þá gengur hann yfir í hús nýrra gesta og færir þeim gjafir við komuna.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert