Nokkur erill var í nótt hjá lögreglumönnum í Vestmannaeyjum og á Ísafirði þar sem tvær af stærstu útihátíðum helgarinnar fara nú fram þar sem þúsundir gesta eru nú staddar. Engar alvarlegar líkamsárásir hafa verið tilkynntar og lögreglan bendir á að langflestir séu til fyrirmyndar.
Samkvæmt upplýsingum frá lögreglunni í Vestmannaeyjum hafa fimm fíkniefnamál komið upp frá því í gærkvöldi. Alls gista nú þrír í fangaklefa eftir nóttina vegna óláta, en allir voru undir áhrifum áfengis. Ein líkamsárás hefur verið kærð, en lögreglan segir að um minniháttar mál sé að ræða. Lögreglan segir að það hafi verið erilsamt en nóttin hafi gengið stóráfallalaust fyrir sig.
Að sögn lögreglunnar á Vestfjörðum gista fjórir í fangaklefa eftir nóttina vegna slagsmála, óláta og fyrir að hlýða ekki fyrirmælum lögreglu. Lögreglan tekur fram að þrír þeirra séu heimamenn. Þá hafa þrjú minniháttar fíkniefnamál komið upp. Í morgun var svo einn ökumaður tekinn undir áhrifum áfengis og annar undir áhrifum vímuefna. Lögreglan segir einnig að nóttin hafi verið erilsöm en tekur fram að engin alvarleg mál hafi komið upp í tengslum við hátíðina og að engin mál hafi verið kærð til lögreglu.
Að sögn lögreglumanna á Akureyri og á Selfossi var nóttin mjög róleg.