Mömmur baka 1.500 möffins

Ungur drengur horfir girndaraugum á kökurnar
Ungur drengur horfir girndaraugum á kökurnar Morgunblaðið/Skapti Hallgrímssin

Sælkerar á Akureyri flykkjast nú í Lystigarðinn vegna viðburðarins „Mömmur og möffins“ en þar eru 1.500 litríkar möffins til sölu til góðgerðarmála. Allur ágóði sölunnar rennur til fæðingardeildarinnar á Akureyri.

„Hugmyndin er sú að baka flottar möffins, gera eitthvað skemmtilegt og láta gott af sér leiða í leiðinni,“ segir Margrét Jónsdóttir, möffinsbakari með meiru.

Ákveðinn kjarnahópur hefur staðið fyrir viðburðinum síðustu fjögur ár en bæjarbúar eru margir farnir að leggja hönd á plóg. „Við erum kjarni sem bökum, en við erum einnig með facebook síðu þar sem við setjum inn fréttir og uppskriftir. Síðan streyma bara Akureyringar hingað inn með kökur á bökkum.“ Þá segir hún kökuborðið helst líkjast listsýningu þar sem litríkar og fallegar kökur standi í röðum á hvítdúkuðum borðum. 

Hver möffins er seld á 300 krónur en Margrét segir marga greiða meira. Síðustu ár hafa allar kökurnar klárast og reiknar hún með að svo verði einnig í ár. Ljóst er því að dágóð fjárhæð safnast fyrir fæðingardeildina þar sem söluandvirðið nemur að minnsta kosti 450 þúsund krónum.

Uppboð á listmun er einnig fastur liður viðburðarins. Í ár verður boðinn upp silfurhringur smíðaður af BOM systrum, þeim Bryndísi og Oddrúnu Magnúsdætrum. Margrét segir hringinn vera ótrúlega fallegan með bleikri perlu sem líkist helst möffins.

Lifandi tónlist er í Lystigarðinum þar sem Inga Eydal og Hermann Arason í bandinu „Heilbrigðiseftirlitið“ og söngkonan Móheiður Guðmundsdóttir spila og syngja.

Möffinssalan hefur þó ekki gengið áfallalaust í gegnum árin þar sem Heilbrigðiseftirlitið gerði athugasemd við söluna árið 2011. „Heilbrigðiseftirlitið sagði okkur að þetta væri bara alls ekki leyfilegt og að það þyrfti að stoppa söluna þar sem kökurnar voru bakaðar í óvottuðu eldhúsi.“

Löggjöfinni hefur hins vegar verið breytt síðan þá og leyfilegt telst nú að baka í óvottuðu eldhúsi til góðgerðarmála en Margrét segir möffinssöluna því vera komna til að vera.

Borðið líkist helst listaverki með litríkum möffins
Borðið líkist helst listaverki með litríkum möffins Morgunblaðið/Skapti Hallgrímssin
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka