Um 150 störf skapast við framkvæmdir á nýju Icelandair-hóteli við Hljómalindarreitinn, en um 70 störf munu skapast við rekstur hótelsins.
Íslenskir iðnaðarmenn, sem fluttu af landi brott eftir bankahrunið, hafa sett sig í samband við fyrirtækið Þingvang, sem byggja mun hótelið, með það fyrir augum að flytja aftur heim til Íslands og vinna að framkvæmdunum. Áætluð verklok eru um mitt ár 2015.
„Við vorum alveg rosalega ánægð að heyra fréttirnar,“ segir Pálmar Harðarson, aðaleigandi Þingvangs. Hann segir að þessir menn hafi starfað saman á Íslandi fyrir hrun en hafi síðan flutt til Noregs þar sem hópurinn tvístraðist. „Þeir vilja hóa hópnum saman aftur. Gamla genginu, eins og þeir kölluðu sig,“ segir Pálmar í umfjöllun um mál þetta í Morgunblaðinu í dag.