Vill svara ESB með meiri veiðum

mbl.is/Helgi Bjarnason

„Ef ESB gerir alvöru úr ófyrirleitnum hótunum um ólögmætar refsiaðgerðir væri réttast að Ísland skammti sér meiri kvóta. Við erum í fullum rétti til þess og óþarft að sýna ESB tillitsemi ef þeir sýna okkur ekkert nema vanþakklæti.“

Þetta segir Frosti Sigurjónsson, þingmaður Framsóknarflokksins og formaður efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis, á Facebook-síðu sinni í dag um hótanir Evrópusambandsins um refsiaðgerðir gegn Íslendingum vegna makríldeilunnar en sambandið hefur hafið undirbúning að slíkum aðgerðum og er komið lengra á veg í þeim efnum gagnvart Færeyingum vegna síldar- og makrílveiða þeirra.

Búist er við að aðgerðir ESB muni fela í sér löndunarbann á færeyskri síld og makríl í höfnum sambandsins en þær gætu einnig gengið lengra en það og náð til fleiri fiskistofna. Sjávarútvegsráðherra Færeyja, Jacob Vestergaard, hefur lýst því yfir að geri ESB alvöru úr hótunum sínum, sem aðallega beinast að síldveiðum Færeyinga, gætu viðbrögð þeirra orðið þau að auka síldveiðikvótann.

Makrílstofninn stærri en talið hefur verið

„Norskir fiskifræðingar telja makrílstofninn orðinn hættulega stóran. Á sama tíma hótar ESB Íslandi refsiaðgerðum fyrir að setja sér í raun mjög hóflegan kvóta sé miðað við hvað stofninn þyngist mikið í íslenskri lögsögu,“ segir Frosti ennfremur og vísar þar til nýrrar rannsóknar vísindamanna norsku hafrannsóknarstofnunarinnar sem bendir til þess að makrílstofninn sé miklu stærri en Alþjóðahafrannsóknaráðsins (ICES) hefur áætlað.

Haft er eftir fiskifræðingnum Jens Christian Holst hjá norsku hafrannsóknarstofnuninni í norskum fjölmiðlum að nauðsynlegt sé að auka verulega veiðar úr makrílstofninum til þess að tryggja sjálfbærni hans og annarra fiskitegunda sem og fuglategunda sem háðar eru sömu fæðu og hann. Hann segir að áherslan hafi til þessa verið um of á að koma í veg fyrir ofveiði og ekki reiknað með að stofnar gætu orðið of stórir. Ofveiði sé slæm en verði fiskistofnar of stórir sé það verra þar sem þeir ógni þá bæði sjálfum sér og öðrum tegundum komi til skorts á fæðu.

Frosti Sigurjónsson, þingmaður Framsóknarflokksins.
Frosti Sigurjónsson, þingmaður Framsóknarflokksins.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka