Íslenski hesturinn setti svip sinn á Berlín í dag við setningu Heimsleika íslenska hestsins í Berlín. Farin var boðreið að Brandenborgarhliðinu og reið Dorrit Moussaieff forsetafrú fremst.
Knaparnir riðu niður 17. júní breiðstræti og var gatan var lokuð niður að Brandenborgarhliðinu þar sem athöfn fór fram. Töluverður hópur áhugafólks um íslenska hestinn safnaðist saman við götuna og ferðamenn fylgdust með.
Tekið var á móti hestamönnunum á torginu við Brandenborgarhliðið í miðborg Berlínar. Um 400 hestar tóku þátt í boðreiðinni.
Reiðin í gegnum Brandenborgarhliðið er síðasti áfanginn í yfir mánaðarlangri boðreið hestamanna, úr þremur nágrannalöndum og í gegnum Þýskaland. Leiðirnar þrjár koma saman í Berlín þar sem Heimsleikarnir eru haldnir. Tilgangurinn er að gefa hestaáhugafólki möguleika á að taka þátt í Heimsleikunum með þessum hætti og bera fána og kefli frá Austurríki, þar sem síðasta mót fór fram, til Berlínar með svipuðum hætti og hlaupið er með ólympíueldinn.
Fulltrúar aðildarlanda FEIF, alþjóðasamtaka um íslenska hestinn, riðu lokaáfangann með Þjóðverjum. Fulltrúar Íslands voru Dorrit Moussaieff forsetafrú, Gunnar Sturluson, varaforseti FEIF, Haraldur Þórarinsson, formaður LH, og Sigurborg Daðadóttir yfirdýralæknir.
Forsetahjónin eru í einkaheimsókn í Berlín. Ólafur Ragnar Grímsson forseti og Klaus Wowereit, borgarstjóri Berlínar, ávörpuðu hestamennina við Brandenborgarhliðið.
Sumir hestamannanna ríða síðan áfram til Karlshorst-hestaíþróttasvæðisins í austurhluta Berlínar þar sem vegleg opnunarathöfn hefst klukkan 15, með miklum hestasýningum.
Sigurður Ingi Jóhannsson landbúnaðarráðherra verður sérstakur gestur FEIF á Heimsleikunum og mun meðal annars afhenda verðlaun um næstu helgi þegar úrslit verða í flestum greinum. Mótið stendur frá 4. til 11. ágúst.