Hópur smyglara, m.a. frá Íslandi, faldi mikið magn amfetamíns í bílum sem ekið var frá Hollandi til Danmerkur. Tveir Íslendingar játuðu aðild sína að málinu. Saksóknari fer fram á að þeir verði dæmdir í tíu ára fangelsi. Réttarhöld í málinu hófust í Kaupmannahöfn í dag. Ellefu voru ákærðir í málinu. Höfuðpaurinn, sem einnig er Íslendingur, hefur þegar hlotið 12 ára fangelsisdóm, segir í frétt Jyllandsposten.
Íslendingarnir sem játuðu málið segjast hafa verið svokölluð burðardýr fyrir höfuðpaurinn, Guðmund Inga Þóroddsson. Guðmundur er 39 ára. Málið snýst um innflutning á 70 kílóum á amfetamíni. Í frétt Jyllandsposten segir að honum hafi verið vísað frá Danmörku.
Annar Íslendingurinn sem játaði þátttöku sína í dag, sagði við réttarhöldin að hann hefði farið tvisvar sinnum til Hollands að sækja fíkniefni, samtals 33,25 kíló af amfetamíni. Hann segist ekki hafa verið einn á ferð.
„Mitt hlutverk var að keyra bíl fyrir framan bílinn sem flutti fíkniefnin og hafa auga með landamæravörðum,“ sagði maðurinn sem er í frétt Jyllandsposten sagður fimmtugur. Átti hann að fá greiddar 50 þúsund krónur danskar fyrir aðstoð sína, eða um eina milljón íslenskra króna.
En innflutningurinn mistókst því lögreglan handtók þann 16. ágúst í fyrra mann á leið yfir landamærin til Danmerkur með 12 kíló af amfetamíni földu í sætum bílsins.
„Hann kenndi mér um að þetta mistókst,“ sagði Íslendingurinn um Guðmund Inga í réttarsalnum í dag. „Ef ég vildi fá peningana yrði ég að fara aftur.“
Mánuði síðar fóru smyglararnir aftur til Hollands að sækja 21,25 kg af amfetamíni. En þá var lögreglan komin á sporið og handtók alla skömmu síðar.
Saksóknari fer fram á að Íslendingurinn fái tíu ára fangelsisdóm og að honum verði vísað úr landi. Hinn Íslendingurinn sem játað hefur á sig aðild að málinu er 25 ára. Fer saksóknari fram á 2 ára fangelsisdóm yfir honum en hann var í ágúst í fyrra dæmdur í átta ára fangelsi fyrir að flytja fimm kíló af amfetamíni frá Bretlandi til Danmerkur.
Saksóknarinn sagði að málið hefði verið þaulskipulagt. Tveir Danir hafa verið ákærðir fyrir að ætla að kaupa hlut amfetamínsins af Íslendingunum.
Dómur verður kveðinn upp yfir Íslendingunum á morgun, þriðjudag, segir í frétt Jyllandsposten.