Forsætisráðherrar funduðu á Gimli

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra og Greg Selinger, forsætisráðherra Manitoba, áttu fund saman á Gimli í dag, fóru yfir sameiginleg hagsmunamál og lögðu drög að heimsókn Selingers til Íslands.

Sigmundur Davíð segir að þeir hafi rætt um mikilvægi ríkjandi samskipta Manitoba og Íslands. Þeir hafi verið sammála um að vinna að því að auka þau á öllum sviðum tækni, vísinda, menntunar, menningar og viðskipta. „Við ræddum um hvernig hægt væri að gera það.“

Selinger hefur hug á að koma með sendinefnd til Íslands í haust. Sigmundur Davíð segir að á fundinum hafi hafist undirbúningur að þeirri heimsókn til þess að hún megi nýtast sem best.

Sigmundur er heiðursgestur Íslendingadagsnefndar og flutti hátíðarræðu í Gimli-garði fyrir stundu. Hann þakkaði frábærar móttökur og sagði að fólk þyrfti að kynnast þessu mannlífi Vestur-Íslendinga. Það væri mikil lífsreynsla og ánægjuleg. Hann þakkaði Kanada fyrir að hafa tekið vel á móti íslenskum innflytjendum og gert þeim mögulegt að viðhalda menningunni og arfleifðinni. Það hefði styrkt Ísland og Íslendinga.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert