Sjúkraflugvél Mýflugs, sem fórst á kvartmílubrautinni í nágrenni Akureyrar í dag, hafði hætt við lendingu skömmu áður og var að fljúga hring um flugvöllinn fyrir annað aðflug, samkvæmt upplýsingum frá Mýflugi. Tveir fórust er vélin brotlenti. Um borð í vélinni voru flugstjóri, flugmaður og sjúkraflutningamaður frá slökkviliði Akureyrar. Líðan flugmannsins sem komst lífs af er eftir atvikum og mun hann ekki vera alvarlega slasaður. Tildrög slyssins eru nú til rannsóknar hjá rannsóknardeild lögreglunnar á Akureyri og rannsóknarnefnd flugslysa. Samkvæmt sjónarvotti sem mbl.is ræddi við lenti vélin mjög harkalega á brautinni og þar kviknaði í henni.
Flugvélin var á leiðinni heim úr sjúkraflugi frá Reykjavík. Þegar slysið átti sér stað stóð yfir spyrnukeppni hjá Bílaklúbbi Akureyrar og var fjöldi fólks á svæðinu, bæði keppendur og áhorfendur. Var fólkinu vísað í fjöldahjálparstöð Rauða krossins í Glerárkirkju sem virkjuð var vegna slyssins þar sem það fékk viðeigandi aðstoð. Svæði bílaklúbbsins verður lokað þar til rannsókn á vettvangi lýkur og búið er að fjarlægja brakið, samkvæmt upplýsingum lögreglunnar á Akureyri.
Sjúkraflugvélin TF-MYX er af gerðinni Beechcraft King Air 200.
Í kjölfar brotlendingarinnar setti flugöryggisfulltrúi Mýflugs af stað flugslysaáætlun félagsins. Félagið setti sig í samband við samhæfingarmiðstöð almannavarna og rannsóknarnefnd samgönguslysa. Flugvél Mýflugs TF-FMS var kölluð til að flytja fólk frá félaginu á vettvang og er hún lent á Akureyrarflugvelli.
„Hugur okkar er hjá okkar fólki og aðstandendum. Því vill Mýflug biðja þá sem upplýsingar hafa að snúa sér til rannsóknarnefndar samgönguslysa en láta ekki slíkar upplýsingar á samfélagsmiðla eða á annan hátt til óviðkomandi,“ segir í frétt frá Sigurði Bjarna Jónssyni, flugöryggisfulltrúa Mýflugs.
Samráðshópur vegna slyssins verður í starfsstöð félagsins í skýli 13 á Akureyrarflugvelli.
Markmið félagsins eru þessi og verður ekkert til sparað, að sögn Mýflugs, að þau nái fram að ganga: