Jón Gestur Ófeigsson, öryggisvörður hjá Landsbankanum, tók þátt í að slökkva eld sem kveiktur var við hurð Alþingishússins um helgina. Þetta er ekki í fyrsta skiptið sem hann kemur í veg fyrir stórbruna því að fyrir 12 árum fékk Jón Gestur viðurkenningu frá VÍS fyrir að slökkva eld sem kveiktur var í Súlnasal Hótel Sögu, en þar munaði litlu að yrði stórbruni.
Jón Gestur og Sveinn Hjörtur Guðfinnsson dyravörður á Thorvaldsen slökktu eld við Alþingishúsið eftir að ungur maður kveikti í eldfimum vökva við aðaldyr hússins aðfaranótt mánudags.
„Það kom til okkar stúlka og sagði að það væri kviknað í Alþingishúsinu. Við héldum að hún væri bara eitthvað að grínast, en þegar ég leit út um gluggann sá ég að dyravörður kom hlaupandi og að það skíðlogaði allt við þinghúsið. Ég greip fyrsta slökkvitækið sem ég sá og hljóp út með honum.
Þegar við nálguðumst sáum við að þetta var eitthvað meira en íkveikja því að það var þarna strákur rétt hjá, rennandi blautur af einhverjum vökva. Hann öskraði á okkur. Ég sprautaði aðeins á eldinn, en svo var strákurinn kominn svo nálægt mér að ég sprautaði á hann, bæði til að koma honum frá mér og tryggja að hann kæmist ekki í eldinn. Svo slökktum við eldinn, en hættan var ekki liðin hjá því að strákurinn var gegnblautur og við sáum að við yrðum að hafa einhverja stjórn á honum. Við lögðum hann því í jörðina og héldum honum þar til lögreglan kom.“
Jón Gestur segir að sem betur fer hafi þetta mál endað vel. Það hafi aldrei borist eldur í manninn því honum og Sveini Hirti tókst að koma í veg fyrir að hann kæmist að eldinum. Jón Gestur segir að maðurinn hafi verið í miklu ójafnvægi og ítrekað sagt að hann ætlaði að kveikja í sér.
Jón Gestur segir að talsvert mikið bál hefði verið við þinghúsið þegar hann kom að húsinu. Eldurinn í Súlnasal Hótel sögu árið 2001 hafi þó verið enn meiri. Um var að ræða íkveikju, en aldrei sannaðist hver hafi verið þar að verki þó grunsemdir hafi beinst að ákveðnum manni.
„Það var búið að kveikja í á nokkrum stöðum. Það var búið að draga saman dúka og eitthvert drasl og kveikja í, en einnig logaði gardínum á 2-3 stöðum. Við tæmdum úr nokkrum slökkvitækjum við að slökkva eldana,“ segir Jón Gestur þegar að hann rifjaði þetta atvik upp, en hann starfaði þá sem næturvörður á Hótel Sögu.
Fleiri starfsmenn hótelsins tóku þátt í að slökkva eldinn, en Jón Gestur átti hins vegar mestan þátt í að ekki varð stórbruni. „Mig minnir að eftir að hafa tæmt öll slökkvitæki höfum við náð að slökkva síðustu eldana með því að rífa niður gardínurnar og trampa á þeim. Þá var slökkviliðið að koma.“
Þegar kviknaði á brunaboða um að eldur væri í Súlnasal var Jón Gestur staddur í kjallara hótelsins. „Þegar ég kom inn í Súlnasalinn var hann orðinn hálffullur af reyk. Ég lét gestamóttökuna vita um að það væri staðfest að eldur væri laus í salnum. Síðan fór ég að leita að honum. Eldurinn var inni í hliðarsal. Rúðurnar voru farnar að springa og hitinn var orðinn það mikill að ljósin voru farin að bráðna í loftinu. Sem betur fer tókst að slökkva eldinn áður en það varð stórbruni.“