Starfsgreinasambandið telur að ýmislegt bendi til þess að misskipting sé að aukast í samfélaginu og við siglum hraðbyri inn í nýtt „2007-ástand“.Sambandið vísar m.a. til upplýsinga úr álagningaskrám sem gefi til kynna launaskrið meðal þeirra hæst launuðu og gögn Hagstofunnar sem staðfesti umtalsvert launaskrið innan fjármálageirans síðustu tvö árin.
„Einhverjir miðlar hafa túlkað það sem svo að laun hafi hækkað á almenna vinnumarkaðnum en þegar betur er að gáð leitar launaskriðið á gamalkunnar slóðir, í fjármálageirann fyrst og fremst,“ segir á vef SGS.
SGS bendir á að lágmarkslaun á íslenskum vinnumarkaði fyrir starfsfólk sem unnið hefur fjóra mánuði eða lengur eru 204.000 krónur á mánuði og eftir skatta og önnur gjöld eru útborguð laun tæplega 168.000 krónur á mánuði.
„Þó flestir séu á hærri launum þá má fyrir þessa upphæð kaupa vinnuframlag í heilan mánuð og getur það varla talist hátt verð. Í haust verður gengið til samninga um meðal annars lágmarkslaun á vinnumarkaðnum. Í aðdraganda kjarasamninga er ástand einstakra atvinnugreina skoðað, stjórnvaldsaðgerðir og hverju má eiga von á næstu misseri í lagasetningu, laun annarra hópa á vinnumarkaði og svo mætti áfram telja. Kjarasamningar eru ekki gerðir í tómarúmi heldur í samhengi við aðra þætti og í þá er rýnt þessa dagana.