Talið er að pólsku stúlkurnar tvær sem létust í bílslysinu á Suðurlandsvegi á sunnudag hafi ekki verið í bílbeltum þegar slysið átti sér stað. Að sögn lögreglu á Selfossi voru hinir tveir farþegarnir, ökumaður og farþegi í framsæti bifreiðarinnar, báðir í beltum.
Fólkið, kona og maður, voru flutt með þyrlum Landhelgisgæslunnar á Landspítalann. Karlmaðurinn, ökumaður bílsins, er nú á gjörgæsludeild spítalans og er hann að sögn læknis mikið slasaður. Konan, sem var farþegi í bifreiðinni, hefur nú verið útskrifuð af gjörgæsludeild og flutt á almenna deild.
Að sögn lögreglu á eftir að yfirheyra fólkið en ekki er vitað með vissu hvað olli slysinu. Talið er að ökumaðurinn hafi misst stjórn á bifreið sinni með þeim afleiðingum að tveir köstuðust út úr henni.
Stúlkurnar tvær, 15 og 16 ára, tengdust manninum og konunni fjölskylduböndum.
Frétt mbl.is: Kominn í öndunarvél eftir slysið
Frétt mbl.is: Tvær pólskar stúlkur létust í slysinu í gær