Fimm hestar alvarlega meiddir

Um 20 hestar úr stóru stóði fældust á brú í Þingeyjarsveit í kvöld þegar bíll ók inn á brúna í miðjum rekstri. Fara þurfti með fimm hestanna til dýralæknis.

Að sögn lögreglunnar á Húsavík atvikaðist óhappið þannig að verið var að reka stórt hestastóð yfir brúna yfir Hrúteyjarkvísl í Skjálfandafljóti. Brúin er tvöföld og voru hestar á báðum akreinum hennar, en stóðið var á leið í austurátt.

Undanfarar hópsins voru komnir yfir brúna, en bíll með hjólhýsi var kyrrstæður við brúna austanmegin, þeim megin sem hestarnir stefndu. Fólkið gerði ekki ráð fyrir að bíllinn færi af stað, ekki frekar en þegar bíll stoppar við einbreiða brú.

Keyrðu inn á brú fulla af hrossum

Lögreglan hefur vísbendingar um að ökumaður bílsins sé erlendur ferðamaður. Þegar undanfararnir voru komnir yfir brúna lúsaðist bíllinn af stað yfir brúna á hægri akrein, sem þá var full af hrossum.

Bílstjóri beygði bíl sínum örlítið til vinstri, með þeim afleiðingum að fjöldi hestanna fór farþegamegin framhjá bílnum, og festust því milli bílsins og brúarinnar. Fát kom á stóðið, með þeim afleiðingum hestarnir tóku að stökkva yfir handrið brúarinnar.

Við það meiddust margir hestanna og þurfti að koma fimm þeirra undir hendur dýralæknis og eru einhver dýranna alvarlega meidd. Lögreglan segir hátt niður frá brúnni og að dýrin hafi mörg rifið sig á handriðinu.

Lögreglan leitar nú ökumannsins. „Hann finnst,“ segir lögreglumaður. Hann telur rekstrarmenn hafa aftrað frekara slysi, en tjónið á hestunum er að öllum líkindum ekki fyllilega komið í ljós.

Lögreglan brýnir fyrir ökumönnum að sýna hrossum aðgát og bera virðingu fyrir öðrum í umferðinni, hvort sem þeir eru gangangi, ríðandi eða akandi.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert