Skriðdreka sást ekið um götur Reykjavíkurborgar. Við fyrstu sýn lítur út fyrir að um þýskan Tiger I skriðdreka sé að ræða, en þeir voru hluti af vopnabúri Þjóðverja í seinni heimsstyrjöldinni. Tiger skriðdrekarnir fylltu hermenn bandamanna miklum ótta þegar af þeim fréttist á nálægum vígstöðvum, því bandamenn áttu lengi vel fullt í fangi með að eyðileggja þá.
Ekki er þó um eiginlegan Tiger skriðdreka að ræða, heldur eftirlíkingu af Tiger sem var byggð á grunni sovésks T-55 skriðdreka. Einungis sjö Tiger skriðdrekar eru eftir í heiminum. Skriðdrekinn, sem var breytt á Englandi, er annar skriðdrekinn til að koma til Íslands. Skriðdrekinn er hér í tengslum við tökur á norsku kvikmyndinni Død snø 2, sem er framhald á myndinni Død snø.
Fyrri kvikmyndin fjallaði um hóp norskra ungmenna sem fóru í skíðafrí á afskekktu svæði. Fyrr en varði þurftu þau að takast á við hóp nasistauppvakninga. Tökur á framhaldsmyndinni hefjast í vikunni, og hermir orðrómur að í þeirri mynd þurfi aðalpersónurnar að takast á við enn fleiri nasíska uppvakninga.
Skriðdrekinn vegur 45 tonn og er með 670 hestafla vél og reykir hann gríðarlega þegar honum er ekið. Búið er að fylla upp í hlaup bæði turnbyssunnar og byssunni framan á skrokknum, svo ekki er hægt að nota þær. Skriðdrekinn er hins vegar ágætlega ökufær, auk þess sem hægt er að snúa turninum. Skriðdreki þessi var að sögn notaður í stórmyndinni Saving Private Ryan.