Skoskur lögmaður, Donald R. MacLeod að nafni, ritar grein í breska viðskiptablaðið Financial Times í dag þar sem hann gagnrýnir Evrópusambandið og sjávarútvegsstjóra þess, Mariu Damanaki, harðlega fyrir að ætla beita Íslendinga og Færeyinga refsiaðgerðum vegna meintra ósjálfbærra makríl- og síldveiða þeirra í stað þess að horfa til stöðu sjávarútvegsmála innan sambandsins.
MacLeod, sem í störfum sínum leggur einkum áherslu á sjávarútvegslöggjöf, segist í greininni vera nýkominn heim úr fríi til Ítalíu þar sem hann hafi séð í fiskbúð lýsing boðinn til sölu sem hefði varla náð 8 cm í lengd. Hann bendir á að allajafna sé lýsingur ekki seldur á opnum markaði nema hann hafi náð 30-70 cm lengd. Á veitingahúsi í nágrenninu hafi hann sömuleiðis séð skötusel og langlúru á boðstólum sem hafi engan veginn náð eðlilegri stærð.
„Ég trúi því ekki að þessi dæmi séu undantekningar. Ég hef einnig reglulega séð smáfisk boðinn til sölu á mörkuðum i í Bretaníu,“ segir MacLeod ennfremur. Hann bendir á að þessi fiskur hljóti að hafa verið veiddur á grunnsævi enda séu fullorðnir fiskar allajafna veiddir á hafi úti. Þá veltir hann því fyrir sér hvaða net geri það mögulegt að veiða svo smáan fisk. Líklega séu það þau sömu og hann hafi séð sjómenn hreinsa á ströndinni í nágrenni bæjarins Montesilvano.
„Þessi ólöglega starfsemi er Evrópusambandinu til skammar og dregur úr trúverðugleika þess. Fyrir Íslendingum og Færeyingum hljóta yfirlýsingar Damanakis um áhyggjur [af makríl- og síldarstofninum] að virka ósannfærandi og ég held að hún ætti að taka á hinni raunverulegu rányrkju í höfnunum hvar sem hún fyrirfinnst innan sambandsins áður en hún fer að níðast á þessum litlu norðlægu samfélögum í okkar nafni,“ segir MacLeod að lokum.