Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra hélt í dag erindi og tók þátt í umræðum um stöðu Norðurlandanna í Evrópu í Arendal, Noregi. Sigmundur Davíð fjallaði meðal annars um stöðu Íslands í Norðurheimskautsráðinu og í Evrópu.
Sagði hann að Ísland vilji áfram vera í góðu samstarfi við Evrópusambandið enda sé Ísland hluti af Evrópu. Samstarfið í gegnum EES hafi reynst Íslendingum vel og samstarf á fleiri sviðum hugnist honum, svo sem í orkugeiranum og sjávarútvegi sem og á sviði norðurheimskautsmála.
Var viðburðurinn liður í dagskrá Arendalsvikunnar, sem er vettvangur stjórnmála- og atvinnulífs í Noregi til umræðu og skoðanaskipta, segir í fréttatilkynningu frá forsætisráðuneytinu.
„Í ræðu sinni lagði forsætisráðherra áherslu á gildi og mikilvægi Norðurlandasamstarfs sem stæði á sterkum grunni. Einnig ræddi forsætisráðherra þróunina á norðurslóðum og mikilvægi þess að Norðurlöndin auki meðal annars samstarf sitt á vettvangi Norðurskautsráðsins. Þá ræddi ráðherrann stöðu Íslands gagnvart Evrópusambandinu.
Forsætisráðherra átti ennfremur tvíhliða fundi með Lars Løkke Rasmussen, fyrrverandi forsætisráðherra Danmerkur og formanni Venstre, og Liv Signe Navarsete, ráðherra sveitarstjórnarmála í Noregi og formanni Miðflokksins. Einnig fundaði ráðherra með Marit Nybakk, forseta Norðurlandaráðs, en Ísland tekur við formennsku í norrænu ráðherranefndinni á næsta ári. Þá kynnti forsætisráðherra sér starfsemi Háskóla norðursins og fundaði með Lars Kullerud, forseta skólans, sem aðsetur hefur í Arendal.
Í kvöld verður forsætisráðherra viðstaddur kappræður leiðtoga stjórnmálaflokka Noregs í Arendal, en kappræðurnar marka eiginlegt upphaf kosningabaráttunnar í Noregi þar sem kosið verður til þings hinn 9. september nk.“ samkvæmt fréttatilkynningu.