„Gott fólk! Vinkonu mína í Danmörku, Teu Isakssen, langar að finna gamlan vin á Íslandi.“ Svo hljóðar auglýsing sem birtist fyrir helgi á Facebooksíðu Maríu Erlu Guðmundsdóttur. Kona ein í Danmörku hefur undanfarin ár reynt að hafa upp á íslenskum félaga sínum. Hún hefur nýtt sér vefinn við leitina og reyndi hún meðal annars að hafa uppi á Íslendingnum á Facebook. Leitin bar engan árangur og greip Tea því til sinna ráða og bað Maríu, íslenska vinkonu sína, að auglýsa eftir manninum á Facebook í von um að einhver hér á landi kannaðist við manninn.
Auglýsingu Maríu og Teu hefur nú þegar verið dreift um þúsund sinnum og ættu því margir að hafa rekið augun í skilaboðin. Að sögn Teu heitir maðurinn Sigurður og er líklega Sigurðsson eða Sigurðarson. Eins og flestir vita er nafnið heldur algengt hér á landi og gæti því reynst erfitt að fletta honum einfaldlega upp í símaskrá eða þjóðskrá. Þá er ekki vitað hvort maðurinn hafi borið annað eiginnafn en Sigurður.
Maðurinn er líklega fæddur á árunum 1957 til 1960. Hann var í námi í Óðinsvéum í Danmörku í kringum 1980 til 1982 og tengdist námið rafmagni, mögulega rafmagnsverkfræði. Þau Tea hlustuðu mikið á Bob Marley á þessum árum, þá sérstaklega lagið Turn your lights down low. „Tea sagði að maðurinn ætti að kveikja á perunni þegar hann heyrir nafnið á laginu,“ segir María Erla í samtali við mbl.is.
María segist hafa fengið nokkur skilaboð eftir að auglýsingin birtist Facebooksíðu hennar og hafi hringurinn þrengst í kjölfarið. Tekist hafi að útiloka nokkra með hjálp Íslendingabókar og þjóðskrár en eftir nánari athugun hafi Tea tjáð henni að maðurinn gæti einnig verið Ólafsson.
„Annað sem hún man er að hann sagðist vera frá bæ norðan Reykjavíkur,“ segir í auglýsingunni. María Erla gerir sér grein fyrir að það þrengi hringinn ekki verulega en vonast þó til að auglýsingin hjálpi vinkonu hennar að hafa uppi á manninum.
En hvað ef Tea finnur nú manninn, hvert er markmiðið með leitinni? „Ég held að hún vilji bara rifja upp gamla tíma og minningar með þessum vini sínum,“ segir María og hlær. „Hún vill bara endurnýja gamlan vinskap, það hangir ekkert á spýtunni, hvorki ástarsamband né börn.“