Dráttarvélar skulu vera með öryggishúsi, öryggisgrind eða að lágmarki með veltiboga. Það eru nauðsynleg öryggistæki sem hafa löngu sannað gildi sitt. Þetta segir Vinnueftirlitið vegna fréttar af bónda á Héraði sem notar 50 ára gömul tæki í heyskap.
Fréttin af bóndanum var í Ríkissjónvarpinu. Þar sagði að margir rækju upp stór augu þegar þeir sæju tækin sem bóndinn notaði, enda væru þau komin mjög til ára sinna. Bæði vörubifreið og dráttarvél hans eru árgerð 1964.
„Alvarlegum slysum í landbúnaði hefur fækkað á undanförnum áratugum. Þar kemur ýmislegt til en eitt af því sem skýrir fækkunina er að tekið var á notkun grindarlausra dráttarvéla. Grindarlausar dráttarvélar voru á sínum tíma algeng sjón til sveita en sjást nú aðeins í undantekningartilvikum. Það gerist þó einstaka sinnum og gefur þá tilefni til að ítreka að dráttavélar skulu vera með öryggishúsi, öryggisgrind eða veltiboga,“ segir í frétt á vef Vinnueftirlitsins.
Það er reglugerð nr.153/1986 um dráttarvélar og hlífabúnað við aflflutning frá þeim sem fjallar um þetta. Þar eru skýr ákvæði um öryggishús, öryggisgrind og veltiboga og jafnframt segir í reglugerðinni: „Þurfi að nota dráttarvélar til vinnu innanhúss, þar sem rými leyfir ekki notkun öryggishúss eða öryggisgrindar, er heimilt að nota þær án þessa búnaðar. Þegar dráttarvélar eru notaðar við þessar aðstæður, skal eigandi eða umráðamaður dráttarvélar sjá svo um að ekki stafi hætta af við slíka vinnu. Skal hann brýna fyrir starfsmönnum að viðhafa sérstaka aðgát við áðurgreindar aðstæður og sjá svo um að öryggishús eða öryggisgrind sé sett strax á dráttarvélina að störfum loknum.“
Ennfremur segir Vinnueftirlitið að mikilvægt sé að þeir sem noti dráttarvélar slaki ekki á hvað öryggi varðar heldur haldi vöku sinni og noti eigin skynsemi til að koma í veg fyrir slys.