Á þriðja tug umferðaróhappa varð á höfuðborgarsvæðinu í dag. Samkvæmt upplýsingum frá forsvarsmönnum Áreksturs.is urðu fjölmargir árekstrar vegna bleytu á götum höfuðborgarsvæðisins.
Meðal annars varð árekstur á Reykjanesbraut í morgun vegna bifreiðar sem skilin var eftir við veginn. Þá missti ökumaður stjórn á bifreið sinni og lenti á ljósastaur í Hafnarfirði og annar missti stjórn á bifreið sinni og lenti á gámi frá Gámaþjónustunni.
Einnig varð árekstur við Ögurhvarf í Kópavogi og voru báðar bifreiðar óökuhæfar eftir hann.
Engin alvarleg slys urðu á fólki í árekstrum dagsins.