Niðurstöður makrílleiðangurs hafrannsóknaskipsins Árna Friðrikssonar benda til að enn sé mikið af makríl í íslenskri lögsögu.
Heldur minna mældist en í fyrra, sem var metár, og segir Jóhann Sigurjónsson, forstjóri Hafrannsóknastofnunar, að munurinn á milli ára sé innan skekkjumarka.
Sigurgeir Þorgeirsson, samningamaður í makríldeilunni í atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu, segir mælinguna nú styrkja samningsstöðu Íslands. „Hvert ár sem líður með þessari miklu makrílgengd í íslenskri lögsögu styrkir samningsstöðu okkar,“ segir Sigurgeir í umfjöllun um mál þetta í Morgunblaðinu í dag.