Boðað verður til almenns íbúafundar strax á næstu dögum um breytingar á skipulagi Hofsvallagötu og framkvæmdir á götunni í tengslum við það. Framkvæmdum við götuna verður hins vegar ekki frestað fram yfir fundinn. Þetta var samþykkt í umhverfis- og skipulagsnefnd Reykjavíkurborgar í dag.
Tillaga fulltrúa Sjálfstæðisflokksins var samþykkt í umhverfis- og skipulagsráði með breytingum. Tillagan var svofelld:
„Lagt er til að umhverfis- og skipulagssvið boði til almenns íbúafundar strax á næstu dögum um breytingar á skipulagi Hofsvallagötu og framkvæmdir á götunni í tengslum við það. Fyrst og fremst verði tilefni fundarins að kalla eftir samráði, hugmyndum og athugasemdum frá íbúum hverfisins. Formaður umhverfis- og skipulagsráðs og varaformaður ráðsins sitji fundinn.
Framkvæmdum við götuna verði frestað þar til fundur hefur verið haldinn með íbúum og umhverfis- og skipulagsráð hefur fjallað um niðurstöður fundarins.“
Með breytingartillögum Besta flokks og Samfylkingar er bókun fundarins eftirfarandi:
„Lagt er til að umhverfis- og skipulagssvið boði til almenns íbúafundar strax á næstu dögum um breytingar á skipulagi Hofsvallagötu og framkvæmdir á götunni í tengslum við það. Fyrst og fremst verði tilefni fundarins að kalla eftir samráði, hugmyndum og athugasemdum frá íbúum hverfisins. Á fundinum verður hlustað eftir skoðunum íbúa, þær ræddar í umhverfis- og skipulagsráði og brugðist við þeim eftir því sem þurfa þykir. Óskað er eftir því að formaður og/eða varaformaður umhverfis- og skipulagsráðs sitji fundinn.
Framkvæmdum við götuna verði ekki frestað þar til fundur hefur verið haldinn, enda þær farnar af stað og því fylgir aukinn kostnaður að stöðva þær og setja af stað aftur síðar. Athygli er vakin á því að umræddar framkvæmdir eru til bráðabrigða.“